Dómur Hæstaréttar er sigur fyrir þá sem hafa þurft að þola níðskrif af hálfu Reynis Traustasonar

Að gefnu tilefni endurbirtum við eftirfarandi frétt:

Í þættinum í dag ræddu þau Arnþrúður og Pétur Gunnlaugsson um dóm Hæstaréttar nr. 38/2021 sem var kveðinn upp 9.febrúar 2022. Arnþrúður vann fullnaðarsigur gegn Reyni Traustasyni ritstjóra Mannlífs.is og staðfesti Hæstiréttur dóm Landsréttar frá 2020. Reyni Traustasyni var gert að greiða Arnþrúði  málskostnað.  Arnþrúður sagðist líta svo á að þessi niðurstaða væri sigur fyrir alla þá einstaklinga sem hefðu þurft að þola níðskrif í athugasemdakerfum og á samfélagsmiðlum og hefðu ekki vettvang eða möguleika á að verja sig. Arnþrúður sagði að þessi dómur væri mjög leiðbeinandi miðað við íslenska löggjöf og ákvæði Mannréttadómstóls Evrópu.
Í reifun dómsins segir:

R krafðist ómerkingar tveggja nánar tiltekinna ummæla sem A viðhafði í útvarpsþætti á útvarpsstöðinni Útvarp Saga 5. desember 2018. Þá gerði R kröfu um að A yrði gert að greiða sér miskabætur vegna þeirra. Í dómi Hæstaréttar kom meðal annars fram að umræða um mikilvæg þjóðfélagsmál nyti aukinnar verndar tjáningarfrelsis. Ekki væri dregið í efa að ummæli A væru framlag til opinberrar umræðu um málefni er gæti varðað samfélagið miklu og væri henni játað rúmt frelsi til tjáningarinnar. Það leiði af hinu rýmkaða tjáningarfrelsi í opinberri umræðu að einstaklingar sem hefðu haslað sér völl á því sviði kunni að verða að þola harðari ummæli um sig en aðrir borgarar að því leyti sem umræðan teljist eiga erindi við almenning. Gagnrýni á störf fjölmiðlamanna kunni þannig að vera hörð og óvægin án þess að hún sæti takmörkunum. Þá kom fram í dómi réttarins að ummæli A hefðu lotið að störfum R sem fjölmiðlamanns. R hefði verið ögrandi í störfum sínum sem fjölmiðlamaður í áratugi og meðal annars ritað bók um þau störf sín. R hefði ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar af fólki sem teldi hann hafa gert á hlut sinn í þeim störfum og að R hefði hlotið dóm fyrir ósönn ummæli og ærumeiðandi fréttaflutning. Við heildstætt mat á ummælum A væri til þess að líta í hvaða samhengi ummælin hefðu verið viðhöfð og hvernig þau hefðu verið sett fram. Taldi rétturinn að A hefði verið að fella gildisdóm um störf R sem ekki skorti með öllu stoð í staðreyndum. Þótt ummælin hefðu verið óvægin var ekki talið að A hefði farið út fyrir mörk tjáningarfrelsis síns. Var A því sýknuð af kröfum R.

Forsendur dómsins

Í forsendum dómsins kemur fram að í dómaframkvæmd Hæstaréttar og Mannréttindadómstóls Evrópu hafi mótast viðmið og reglur sem beita beri við úrlausn um álitaefnið. Þá þurfi að meta sjónarmið beggja aðila í ljósi þess að hvort tveggja, tjáningarfrelsi gagnáfrýjanda (Arnþrúður) og æruvernd aðaláfrýjanda (Reynir), eru meðal mannréttinda sem njóta verndar stjórnarskrárinnar og sáttmálans og finna þarf jafnvægið milli þeirra.

Athugasemdakerfi netmiðlanna er ormagryfja


Þá segir að ummæli gagnáfrýjanda hafi verið ádeila á orðræðu í þjóðfélaginu sem birtist á netmiðlum og hún telji vera „ormagryfju“ þannig að lagasetningarvaldið þurfi að láta til sín taka í þeim efnum. Þannig verði gagnáfrýjanda játað rúmt frelsi til tjáningar um þetta tiltekna málefni og ekki dregið í efa að ummæli hennar séu framlag til opinberrar umræðu um málefni er getur varðað samfélagið miklu.


Hæstiréttur segir í dómnum að það leiði af hinu rýmkaða tjáningarfrelsi í opinberri umræðu að einstaklingar sem hafi haslað sér völl á því sviði kunna að verða að þola harðari ummæli um sig en aðrir borgarar að því leyti sem umræðan telst eiga erindi við almenning og vísar Hæstiréttur í dóm Hæstaréttar 10. desember 2015 í máli nr. 238/2015 þar af lútandi. Þá segir að í lýðræðisþjóðfélagi gegni fjölmiðlar og fjölmiðlamenn að þessu leyti lykilhlutverki og njóti ríks svigrúms til tjáningar um málefni sem eigi erindi til almennings og séu hluti af þjóðfélagsumræðu, sbr. til að mynda framangreindan dóm Hæstaréttar í máli nr. 575/2008. Leiðir af því að gagnrýni á störf fjölmiðlamanna kann einnig að vera hörð og óvægin án þess að hún sæti takmörkunum.Hæstiréttur horfir einnig til þess að Reynir Traustason hafi starfað sem blaðamaður eða ritstjóri á fjölmiðlum í áraraðir og vegna þeirra starfa hafi hann mikið verið í sviðsljósinu. Ummælin sem um ræðir hafi lotið að störfum hans sem fjölmiðlamanns.

Horft til þess að Reynir hlaut dóm fyrir ósönn ummæli og ærumeiðandi fréttaflutning


Þá horfir Hætiréttur einnig til fyrri háttsemi Reynis við mat á því hversu óvægna gagnrýni hann verði talinn þurfa að þola, sbr. til dæmis dóm Hæstaréttar 25. september 2003 í máli nr. 36/2003, en tekið er fram í dómnum að Reynir hafi verið ögrandi í störfum sínum sem fjölmiðlamaður í áratugi og meðal annars ritað bók um þau störf sín. Þá hefur honum ítrekað verið stefnt fyrir ærumeiðingar af fólki sem telur hann hafa gert á hlut sinn í þeim störfum. Hæstiréttur bendir meðal annars á að Reynir hafi hlotið dóm fyrir ósönn ummæli og ærumeiðandi fréttaflutning með dómi Héraðsdóms Reykjavíkur 16. desember 2013. Í öðrum meiðyrðamálum gegn honum hafa dómstólar talið að hið rýmkaða tjáningarfrelsi sem fjölmiðlar hafa til að fjalla um samfélagsleg málefni sem eiga erindi í opinbera umræðu ætti að ganga framar friðhelgi einkalífs stefnenda í þeim málum.


Þá segir í forsendum dómsins að við heildstætt mat á ummælum gagnáfrýjanda (Arnþrúðar Karlsdóttur) sé til þess að líta að ummæli Arnþrúðar voru ekki sett fram sem liður í fréttaflutningi heldur skírskotaði hún til almannahagsmuna og tengdi þau stjórnmálum. Lýsti hún andúð á umræðu og ósönnum fréttaflutningi sem tíðkaðist í þjóðfélaginu og taldi að Alþingi ætti að láta málefnið til sín taka. Dró hún ályktanir þar um með því að taka dæmi af aðferðum fjölmiðla og vísaði til framgöngu aðaláfrýjanda sem dæmis um hvernig fjölmiðlaumræða gæti haft áhrif á líf og lífshamingju fólks. Verður ekki annað talið en að tilvísun gagnáfrýjanda, sem sett var fram í spurnarformi, til orðasambandsins að hafa mörg mannslíf á samviskunni hafi verið notuð í yfirfærðri merkingu en ekki falið í sér fullyrðingu um að hann sjálfur hafi beinlínis orðið valdur að dauða fólks, sbr. meðal annars til hliðsjónar dóm Hæstaréttar 3. maí 2018 í máli nr. 405/2017. Með allt framangreint í huga verður ekki annað séð en að gagnáfrýjandi hafi með ummælum sínum verið að fella gildisdóm um störf aðaláfrýjanda sem ekki skorti með öllu stoð í staðreyndum.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila