Aðildarviðræður við ESB eru ekki samningafundir um undanþágur

Aðildarviðræður um Evrópusambandsaðild eru ekki fundir þar sem verið er að semja um undanþágur heldur er um að ræða fundi þar sem verið er að ganga úr skugga um að viðkomandi þjóð hafi aðlagað lög sín að lögum Evrópusambandsins. Þetta ver meðal þess sem fram kom í máli Haraldar Ólafssonar prófessors í veðurfræði við Háskóla Íslands og formanns Heimssýnar félags sjálfstæðra í Evrópumálum, í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Haraldur bendir á að menn hafi reynt að semja um ýmis atriði þegar aðildarviðræður stóðu yfir í fjögur ár frá árinu 2009 og auðvitað hafi ekkert komið æut úr því, því það hefði ekkert verið að semja um.

Arnþrúður sagði að lengi í þeim aðildarviðræðum hefðu menn lengi reynt að leika þann leik að vera að opna einhverja pakka, hins vegar hafi pakkar um sjávarútvegs og landbúnaðarmál aldrei verið opnaðir svo það hafi ekki komið til að reynt hafi á þann hluta viðræðnanna.

Haraldur segir það sérkennilegt að svo virðist sem þeir sem aðhyllast Evrópusambandið vilji ekki horfast í augu við að ætlast sé til þess að lög Evrópusambandsins eigi að gilda í öllum aðildarlöndum sambandsins.

„jafnvel þó það væri ekki satt sem það er þá væri auðvitað ekki nokkur leið til þess að semja um einhverjar undanþágur frá einhverjum lögum sem ekki sé búið að setja nú þegar, ef að Ísland gengur þarna inn þá gengur það Evrópusambandinu á hönd og tekur á sig að samþykkja allan þá löggjöf sem sambandið setur um ókomna framtíð og það er ógerningur að segja til um hvað mun koma þaðan“ segir Haraldur.

Hann segir mikilvægt að hafa í huga að Ísland á í miklum viðskiptum við útlönd og það væri algert glapræði að framselja það vald sem Ísland hefur yfir sínum viðskiptum til Evrópusambandsins.

“ það væri óðs manns æði því við vitum ekkert hvernig heimurinn verður eftir tíu eða tuttugu ár eða hverjir verða mikilvægustu viðskiptavinir Íslendinga þá og hverjir skaffa okkur vörur og svo framvegis en það sem mestu máli skiptir er að hafa vald í þessum málum svo hægt sé að bregðast við aðstæðum hverju sinni og hverjar svo sem þær verða“segir Haraldur.

Hann bendir á að þau rök manna um að það sé gott að Ísland væri í Evrópusambandinu til þess að hafa sæti við borðið haldi ekki vatni því Ísland væri svo lítið að það hefði ekkert vægi til þess að geta komið við andmælum við ákvarðanir sem séu teknar af meirihluta Evrópusambandsins því hefði Ísland lítið að gera með sæti við borðið.

„það er ekkert launungarmál að stóru ríkin sem þarna ráða ferðinni, Þjóðverjar og Frakkar líta á Evrópusambandið sem tæki til þess að auka sitt vald á taflborði heimsins, sérstaklega Frakkar sem hugsa mjög mikið á þann hátt og menn myndu aldrei líða það að smáríki færu að þvælast fyrir í svoleiðis samhengi, það er auðvitað þannig að valdið í ESB deilist að einhverju leyti milli þessara stóru ríkja þar sem margir búa og svo peninganna“segir Haraldur.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila