Viðbrögð við #églíka: Samskiptaráðgjafi íþrótta- og æskulýðsstarfs tekur brátt til starfa

Ný lög um samskiptaráðgjafa íþrótta- og æskulýðsstarfs byggja á tillögum starfshóps mennta- og menningarmálaráðherra um aðgerðir gegn kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun í íþrótta- og æskulýðsstarfi. Lögin heimila ráðherra að fela þriðja aðila að sinna hlutverki samskiptaráðgjafa og á þeim grundvelli var ráðist í útboð á þjónustunni. Þrír aðilar sóttust eftir því að annast ráðgjöfina og að loknu formlegu mati var Domus Mentis – Geðheilsustöð talin hæfust. Í dag var því skrifað undir samstarfssamning ráðuneytisins og Domus Mentis.

Samskiptaráðgjafanum er m.a. ætlað að leiðbeina einstaklingum sem til hans leita vegna atvika eða misgerða sem orðið hafa í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi sem varða t.d. einelti, ofbeldi eða kynbundna eða kynferðislega áreitni. Þá mun ráðgjafinn einnig veita íþrótta- og æskulýðsfélögum og -samtökum fræðslu og ráðgjöf. 

Lilja Alfreðsdóttir mennta- og menningarmálaráðherra:
Það er afar mikilvægt að tryggja framvindu þessa máls og ánægjulegt að við getum með markvissari hætti en áður stuðlað að auknu öryggi iðkenda. Samfélagið okkar er að ganga í gegnum vitundarvakningu um málefni sem tengjast kynferðislegri áreitni og ofbeldishegðun. Það er okkar markmið að tryggja að allir njóti verndar í skipulögðu íþrótta- og æskulýðsstarfi.“

Domus Mentis veitir einstaklingum, fjölskyldum, fyrirtækjum og stofnunum víðtæka þjónustu sem stuðlar að bættri líðan og geðheilsu fólks. Hjá fyrirtækinu starfar fagfólk með breiða þekkingu á félags- heilbrigðis- og réttarvörslukerfinu, sálfræði, geðlæknisfræði, hjúkrunar- og kynfræði og félagsráðgjöf.

Fyrirhugað er að ráðið verði í stöðu samskiptaráðgjafans á næstunni og viðkomandi hefji formlega störf í næsta mánuði. Þá er einnig ráðgert að opnaður verði fræðsluvefur um hlutverk ráðgjafans og verksvið.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila