Andlát: Jón Valur Jensson

Jón Valur Jensson guðfræðingur og ættfræðingur er látinn sjötugur að aldri. Jón sem lést aðfararnótt 6.janúar var um árabil pistlahöfundur hér á Útvarpi Sögu og þá hringdi Jón reglulega inn í símatíma stöðvarinnar þar sem hann viðraði skoðanir sínar á þjóðmálunum.

Hann var þekktur fyrir baráttu sína fyrir lífsrétti ófæddra barna og tók þátt í félagsstörfum tengdum því málefni. Þá var Jón einn afkastamesti bloggari landsins og mikill baráttumaður fyrir kristnum gildum sem og fullveldis þjóðarinnar og var ætíð óhræddur við að láta þá skoðun sína í ljós að Ísland ætti að standa utan Evrópusambandsins.

Eftir að Jón útskrifaðist sem stúdent frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1971 hóf hann guðfræðinám við Háskóla Íslands en þaðan útskrifaðist Jón sem guðfræðingur árið 1979. Einnig lagði Jón Valur stund á latínu og grísku við Háskóla Íslands.

Þá fór Jón síðar í framhaldsnám í Camebridge í Englandi og nam heimspeki og kristna siðfræði. Hann vann ýmis störf í gegnum tíðina, meðal annars við sjómennsku en á lífsleiðinni starfaði hann að mestu við ættfræðirannsóknir hjá Ættfræðiþjónustunni sem Jón stofnaði og rak og þá vann Jón einnig við prófarkalestur hjá Morgunblaðinu.

Stjórnendur og starfsfólk Útvarps Sögu sendir aðstandendum Jóns Vals innilegar samúðarkveðjur og þakka Jóni samfylgdina í gegnum árin.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila