Annar hver kennari verður fyrir ofbeldi og kallaður „hóra“ og „fáviti“

Ný skýrsla sænska Kennarasambandsins segir frá hráum raunveruleika í skólum Svíþjóðar, þar sem kennarar eru uppnefndir illum nöfnum, verða fyrir ofbeldi nemenda og fyrirlitningu foreldra. 20 % kennara íhuga að hætta í greininni. (Samsett mynd).

Kennarasambandið í Svíþjóð sendi frá sér skýrsluna „Haltu kjafti kerling“ nýlega. Þar kemur fram að hótanir og ofbeldi eru daglegt brauð á forskólum, frístundaheimilum og í barnaskólum frá fyrsta upp í sjötta bekk. Það er heldur ekkert óvenjulegt, að foreldrar barna komi illa fram við kennarana.

Auk þess sem annar hver kennari lendir í líkamlegu ofbeldi af hálfu nemenda, sjö af tíu lenda í því að nemendur séu árásargjarnir og hóti kennurunum, þá lendir einnig fjórði hver kennari í því, að foreldri eða forráðamaður barna segi móðgandi og niðurlægjandi hluti við kennarann.

Vegna ástandsins íhugar fimmti hver kennari að alfarið hætta sem kennari og snúa sér að störfum í öðrum greinum. Auk líkamlegra áverka þjást kennarar af erfiðleikum með svefn, áhyggjum og kvíða.

Kennarasambandið segir, að hótanir og ofbeldi sé í öllum tegundum skóla og að þetta sé ekki „bara vandamál í skólum í viðkvæmum svæðum eða í skólum, þar sem samsetning nemenda lítur út á ákveðinn hátt.“

Þrjú atriði

Til að stöðva þessa neikvæðu þróun, þá vill Kennarasambandið að ríkið taki yfir aðalábyrgðina á fjármögnun skólanna, sem í dag er í höndum sveitarfélaganna. Vill Kennarasambandið sjá til þess að nemendur, sem þarfnast aðstoðar fái aðstoð og að tillögur rannsóknarhóps Frístundaheimila verði framfylgt m.a. með fleiri menntuðum kennurum, minni nemendahópum og aðlöguðum húsakynnum fyrir skólastarfsemina.

Í annarri skýrlsu sem kom út fyrr í ár undir nafninu „Þegar öryggið brestur,“ þá var staða kennara í sjöunda og áttunda bekk rannsökuð varðandi hótanir og ofbeldi nemenda. Sú skýrsla sýndi að meira en helmingur kennara á gagnfræðaskólastigi og fleiri en fimmti hver menntaskólakennari hafa lent í hótunartilfellum með einstakum nemendum á síðustu tveimur árum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila