Áramótaspá Sirrýjar Spákonu fyrir árið 2020

Sirrý spákona

Eins og undanfarin ár birtir Útvarp Saga áramótaspár fyrir komandi ár og í síðdegisútvarpinu í dag var Sirrý spákona gestur Arnþrúðar Karlsdóttur og leit Sirrý í kristalskúlu sína og greindi hlustendum frá þeim atburðum sem hún telur að vænta megi á komandi ári. Hér ætlum við að stikla á stóru á því helsta sem fram kom í spánni en fyrir áhugasama er rétt að benda á að hægt er að hlusta á áramótaspána í heild í spilaranum neðst í fréttinni. Þeir sem vilja fá einkatíma hjá Sirrý er bent á að hafa samband í síma 800-6116.

Stjórnmálin og verkalýðsmál


Á fyrri hluta ársins verður mikil mótmælaalda í kjölfar mikilla verðhækkana sem koma til framkvæmda um áramót, og segir Sirrý að mótmælin sýni að fólk sé búið að fá nóg því það hreinlega geti ekki tekið á sig meiri verðhækkanir, þá verði einnig krafa um að Kristján Þór víki sem sjávarútvegsráðherra vegna Samherjamálsins, sem hann svo gerir, einnig verður allsherjarverkfall.

Í kjölfar þessara atburða verði kosningar og þær verða á svipuðum tíma og kosningar til embættis forseta Íslands fara fram. Einnig munu mótmælin ná inn í borgarmálin vegna óstjórnar hjá borginni og mun Dagur B. Eggertsson hrökklast frá völdum. Ísland mun ekki fara af gráa listanum svokallaða í bráð. Orkupakki fjögur kemur upp í umræðunni á árinu en Sirrý segir að pakkinn verði ekki samþykktur.


Sirrý segir að hinir hefðbundnu flokkar eigi erfitt uppdráttar, sem og Miðflokkurinn sem muni missa fylgi í kjölfar togstreitu sem kemur upp innan flokksins, Samfylkingin eigi þó góða daga fram undan og mun jafnvel ná inn í nýja ríkisstjórn ásamt tveimur nýjum flokkum, en þeir flokkar séu skipaðir nýju fólki í bland við reyndari stjórnmálamenn.


Klofningur verður innan Sjálfstæðisflokksins sem verður til þess að Bjarni Benediktsson stígur til hliðar, þrír einstaklingar koma fram sem vilja í formannsembættið tveir karlar og ein kona og kemur konan sterk inn í baráttuna um sætið og gæti hreppt sæti Bjarna.


Katrín Jakobsdóttir mun hætta í stjórnmálum á árinu, flytjast búferlum erlendis og sinna störfum tengdum loftslagsmálunum.


Sigurður Ingi mun hætta sem formaður Framsóknarflokksins en flokkurinn mun fá slæma útreið úr kosningunum og er flokkurinn búinn að vera.
Í forsetakosningunum mun Guðni Th. Jóhannesson forseti fá mótframboð frá þremur einstaklingum, tveim konum og einum karli og mun svo fara að lokum að konan fari með sigur af hólmi,


Samherjamálið


Sirrý segir að með tímanum eigi fleiri lönd eiga eftir að blandast inn í Samherjamálið og málið sé mun umfangsmeira en talið hafi verið í fyrstu og aðspurð um hvaða lönd eigi eftir að blandast inn í málið nefnir Sirrý að hún sjái lönd eins og til dæmis Pólland í tengslum við málið. Málið mun einnig verða til þess að fiskveiðistjórnarkerfinu verði breytt.


Embætti ríkislögreglustjóra


Lektorsmálið sem upp kom á dögunum mun hafa áhrif á þau áform Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur lögreglustjóra að sækja um stöðu ríkislögreglustjóra og því mun karlmaður sem að lokum verður talinn hæfari til að gegna starfinu fá stöðuna.


Glæpir og löggæslumál


Erlendir glæpahópar munu herja á Ísland sem aldrei fyrr og á lögreglan erfitt með að ráða við ástandið þar sem hún er fjársvelt. Meira verður um vopnaburð innan undirheima Íslands og sé horft á ástandið í Svíþjóð og það borið sama þá megi segja að í þeim samanburði komi Ísland ekki vel út, fjölga þurfi í lögreglunni ef ekki á illa að fara. Stór fíkniefnamál koma upp á árinu og mun það magn sem hald verður lagt hald ná nýjum hæðum.


Fjölmiðlar


Erfitt verður fyrir Lilju Alfreðsdóttur að halda um Ríkisútvarpið þar sem hún mæti ráðríkum starfsmönnum þess sem engu vilja breyta, og vilja ráða hvernig málum þar innan dyra sé háttað. Mikil spilling sé innan stofnunarinnar. Aðrir fjölmiðlar munu áfram berjast í bökkum og fjölmiðlafrumvarpið mun ekki verða að lögum.


Náttúruhamfarir


Stór skjálfti sem á upptök sín úti á hafi mun ríða yfir landið á árinu, talsverðar skemmdir verða en ekkert mannfall. Þá verður snjóflóð á árinu sem gæti reynst valda manntjóni, að minnsta kosti mun þurfa fara fram leit og björgun í kjölfar snjóflóðsins.


Landsréttarmálið


Niðurstaða yfirnefndar Evrópudómstólsins í Landsréttarmálinu verður mjög neikvæð fyrir Ísland, niðurstaðan verði einfaldlega sú að þeir hafi ekki verið skipaðir með löglegum hætti. 


Ferðaþjónustan


Ferðamannastraumurinn mun hrynja á árinu, kínverjar komi þó hér í stórum hópum, enda verði fargjöld þeirra niðurgreidd af kínverska ríkinu í þeim tilgangi einum að blekkja íslendinga í viðskiptaskyni.


Heilbrigðismálin


Ástandið á spítölum landsins á eftir að versna enn frekar og ástandið verða vægast sagt skelfilegt. Starfsmenn sem séu þó allir að vilja gerðir að veita góða þjónustu munu ekki ráða við ástandið og óánægja mun aukast til muna hvað þjónustuþátt heilbrigðiskerfsins varðar, veita þurfi meira fé til málaflokksins.


Utanríkismál


Útganga breta úr Evrópusambandinu mun hafa þau áhrif á Evrópusambandið að fleiri lönd munu skoða stöðu sína innan ESB og taka þá ákvörðun að ganga úr sambandinu, en meðal þeirra landa verða Frakkland, Ítalía og Malta, en í kjölfarið mun Evran hrynja.


Donald Trump mun verða sem klettur í hafi í komandi forsetakosningum í Bandaríkjunum og með hjálp duglegra starfsmanna sinna og velunnara sigra kosningarnar, hann hafi raðað mjög góðum hópi sterkra einstaklinga í kringum sig.

Hlusta má spá Sirrýjar í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila