Árangurinn af kjarasamningunum 2019 að hverfa í hafsjó verðhækkana

Allur sá árangur sem varð af kjarasamningsgerðinni árið 2019 er nú að hverfa í hafsjó verðhækkana og við því verður að bregðast og ljóst er að það stefnir í átök á vinnumarkaði í haust. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Vilhjálms Birgissonar formanns Verkalýðsfélags Akraness í síðdegisútvarpinu í dag en hann var viðmælandi Péturs Gunnlaugssonar.

Vilhjálmur segir ljóst að stýrivaxtastefna Seðlabankans verður þess valdandi að köfur verkalýðshreyfingarinnar þegar kemur að næstu gerð kjarasamninga muni verða hærri en ella, það sé fyrst og fremst vegna vaxtastefnunnar.

„Þegar verið er að hækka stýrivexti með þeim hætti sem hafa birst okkur á liðnum mánuðum þá hafa sem dæmi vextir hjá viðskiptabönkunum hækkað á tólf mánaða tímabili um rétt tæp 3 prósent og þetta þýðir það að fólk sem er með sem dæmi óverðtryggt 20 milljón króna lán á slíkum kjörum sé að borga afborgun sem hefur hækkað um 47 þúsund á síðustu tólf mánuðum“ segir Vilhjálmur.

Hann segir stöðuna og viðbrögð yfirvalda óskiljanleg og bendir á að stýrivaxtahækkanir séu ekki að hafa áhrif á verðbólguna því vandinn sé ekki til komin héðan úr heimahögunum, heldur erlendis frá, fyrst og fremst sé um verðbólgu að ræða sem sé til komin vegna orkuskorts.

„ég held að staðan sem sé að teiknast hér upp sé einfaldlega sú að verkalýðshreyfingin verður nauðbeygð til þess að láta sverfa til stáls og kalla hér fram róttækar breytingar á fjármálamarkaði, matvörumarkaði og eldsneytismarkaði. Öllum kostnaðarhækkunum hefur verið varpað á neytendur á liðnum mánuðum og það eru alveg þolmörk fyrir því hvað almenningur getur tekið á sig lengi slíkar hækkanir, ríkið verður líka að koma duglega að þessum málum og verða að hefja undirbúning strax“segir Vilhjálmur.

Þá segir Vilhjálmur að hann myndi gjarnan vilja sjá verkalýðsfélögin beita sér innan lífeyrissjóðina sem meðal annara eiga stærstu matvöruverslunarkeðjur landsins.

„það virðist vera að lífeyrissjóðum sé afskaplega mikið í blóð borið að ná sem mestum arði alveg sama hvernig hann er fenginn og alveg sama hvort hann sé fenginn með verðhækkunum cerslana og píni hreinlega sína félagsmenn,ég velti stundum fyrir mér hver samkeppnin sé á milli verslanakeðja sem eru í eigu þessara sjóða“

Þá gagnrýnir Vilhjálmur harðlega starfslokasamninga sem gerðir séu innan fyrirtækja sem eru í eigu sjóðanna og nefnir starfslokasamning sem gerður var við fráfarandi forstjóra Festis

„þar voru upphæðirnar slíkar að til þess að geta unnið sér inn slíka upphæð þarf meðal verkamaður að vinna sér inn fyrir því næstu 20 árin“

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila