Atlaga að lýðræðinu að hunsa niðurstöður úr lögmætri þjóðaratkvæðagreiðslu – Rýrð kastað á stöðu Íslands sem lýðræðisríkis

Það er atlaga að lýðræðinu að hunsa niðurstöður úr lögmætri þjóðaratkvæðagreiðslu eins og gert var gagnvart tillögum stjórnlagaráðs sem þjóðin fékk að kjósa um. Þetta er meðal þess sem segir í nokkuð harðorðri umsögn Stjórnarskrárfélagsins um stjórnarskrárfrumvarp Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra.

Í umsögn félagsins segir jafnframt að með því að hunsa niðurstöður þjóðaratkvæðagreiðslunnar hafi verið sett fram háskalegt fordæmi sem kasti mikilli rýrð á stöðu Íslands sem lýðræðisríkis og ónýti það lýðræðislega tæki sem þjóðaratkvæðagreiðslur eru í stefnumarkandi málum.

Óhætt er að segja að Stjórnarskrárfélagið gefi ekki mikið fyrir stjórnarskrárfrumvarp forsætisráðherra sem félagið segir að virði að vettugi meginforsendu lýðræðis, að uppspretta valdsins sé hjá fullvalda þjóð og að þjóðin sé stjórnarskrárgjafinn.

Þá segir jafnframt í umsögninni:

Í október 2012 tjáði þjóðin sig um hvaða stjórnarskrá hún vildi leggja til grundvallar, með eins skýrum hætti og lýðræðisleg umgjörð okkar býður upp á. Við verðum að horfast í augu við þá staðreynd að með þeim hætti birtist vilji stjórnarskrárgjafans. Við vitum öll að þingkosningar snúast sjaldnast um stjórnarskrármál, og því er langsótt að ætla að draga
ályktanir um vilja kjósenda um stjórnarskrá út frá því sem kemur upp úr kjörkössum í alþingiskosningum. Hins vegar liggur fyrir að í eina skiptið sem kjósendur hafa verið spurðir með skýrum, einangruðum og lýðræðislegum hætti um afstöðu til málsins var svarið afdráttarlaust.

Í lokaorðum umsagnarinnar segir að það geti ekki verið hlutverk framkvæmdavaldsins að leggja línur um breytingar á stjórnarskránni og það geti heldur ekki verið hlutverk ráðamanna að setja sjálfum sér mörk
um valdheimildir.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila