Átta manns særðir eftir hryðjuverkaárás hnífamanns í Vetlanda, Svíþjóð. Árásarmaðurinn skotinn af lögreglu.

Mikill styrkur lögreglumanna var fljótt á staðnum og var árásarmaðurinn fljótlega skotinn, handtekinn og færður á sjúkrahús.

Uppfært kl 22.58: Dagens Nyheter segir hryðjuverkamanninn hafa fengið lögheimili skráð í Svíþjóð 2018 og hafi varla talað sænsku né ensku. Hann bjó í einstaklingsíbúð í Vetlanda. Meiri upplýsingar m.a. á myndbandi neðst á síðunni.

Átta manns liggja á sjúkrahúsi eftir árás hryðjuverkamanns sem réðst á fólk með stunguvopni, hníf eða sveðju og særði í miðbæ Vetlanda eftir klukkan þrjú í dag. Margir eru alvarlega særðir, aðrir minna. Árásarmaðurinn var skotinn af lögreglunni en þá hafði hann náð að gera árásir á 6-7 stöðum í miðbænum að sögn sænska sjónvarpsins. Árásarmaðurinn er á sjúkrahúsi og hefur enn ekki verið hægt að yfirheyra hann. Vetlanda er lítill rúmlega 13 þúsund manna friðsamur bær í Småland, Suður-Svíþjóð og hefur atburðurinn sett bæjarlífið úr skorðum. Lögreglan segist rannsaka málið sem morðtilræði en segir á heimasíðu sinni að árásin sé einnig rannsökuð sem meint hryðjuverk.

Vetlanda var friðsamur smábær með rúmlega 13 þúsund íbúum. Árásin hefur gjörbreytt ímynd bæjarins og íbúarnir felmtri slegnir.

Hryðjuverkasérfræðingurinn Magnus Ramstorp sagði í kvöldfréttum að leynilögreglan hefði gildar ástæður ef þeir segðust rannsaka málið sem hryðjuverk. Segir hann að lögreglan segi ekki beint að málið sé hryðjuverk en að hún athugi það sem slíkt bendi til að maðurinn gæti hafa verið á lista yfir grunaða hryðjuverkamenn eða hann sagt eitthvað sem styrkti að um hryðjuverk væri að ræða. Lögreglan hefur verið virk á nokkrum öðrum stöðum í sambandi við ódæðið. Lögreglan hefur ekki viljað segja neitt um deili á hryðjuverkamanninum annað en að hann var áður þekktur af lögreglunni. Miðbær Vetlanda var lokaður í dag en umferð hleypt á aftur í kvöld. Lestar stoppuðu ekki við Vetlanda eftir atburðinn í dag en búist var við að þær hæfust að nýju með kvöldinu. Lögreglan mun halda blaðamannafund á morgun fimmtudag og greina nánar frá ódæðinu og rannsókn málsins.

Dróni notaður við leit úr lofti.

Árásirnar voru dreifðar um miðbæinn og framdar með stuttu millibili svo það virðist sem árásarmaðurinn hafi farið um miðbæinn í þeim ásetningi að drepa og særa sem flesta. Fréttaritari sjónvarpsins lýsti stórum blóðpolli fyrir utan blómabúð og voru blóðslettur upp með glugga búðarinnar, þannig að ljóst er að átök og áverkar hafa verið miklir á hluta þeirra særðu. Lögreglan vildi lítt tjá sig um vopn eða hvort hryðjuverkamðurinn þekkti fórnarlömb sín eða hvort það væri tilviljun háð hverja hann særði og reyndi að drepa. Ráðherrar og forystumenn stjórnarflokkanna fordæmdu ódæðið einum rómi og sögðu huginn með fórnarlömbunum og fjölskyldum þeirra.

Sjá nánar hér

Athugasemdir

athugasemdir

Deila