Aukin heimahjúkrun og öflug heimaþjónusta dregur úr kostnaði í dýrari úrræðum.

Aukin heimahjúkrun og öflug heimaþjónusta dregur úr kostnaði í dýrari úrræðum og því þurfa yfirvöld að taka mið af þeirri þörf sem sé fyrir slíka þjónustu og forgangsraða samkvæmt því. Þetta kemur fram í ályktun frá Sjúkraliðafélagi Íslands.

Í ályktuninni segir að heilbrigðisútgjöld vegna þeirra sem eru 65 ára og eldri séu um helmingur af öllum heilbrigðisútgjöldum hins opinbera. Fólk í þessum aldurshópi er þó einungis rúmlega 14% mannfjöldans. Í ljósi þess að fjöldi eldri borgara mun tvöfaldast á næstu 25 árum er ekki einungis þörf á auknum fjármunum í heilbrigðiskerfið heldur á stórauknu átaki í heimahjúkrun og heimaþjónustu.

Sjúkraliðar benda á að þeir gegni lykilhlutverki í þessari nærþjónustu við landsmenn og eru sem fyrr tilbúnir í öll krefjandi verkefni. Með aukinni menntun sjúkraliða á háskólastigi verði það hlutverk enn mikilvægara. Skorað er á stjórnvöld að huga mun betur að þessari mikilvægu þjónustu og bæta starfsumhverfi þeirra sem henni sinna.

Deila