Bændur funda um land allt í ágúst – Samtal um öryggi

Bændasamtök Íslands standa fyrir röð funda meðal bænda um land allt í ágúst. Á fundunum sem haldnir verða undir yfirskriftinni Samtal um öryggi verður meðal annars fjallað um stöðuna í landbúnaði, komandi búvörusamninga, afkomu og horfur og annað það sem brennur helst á bændum landsins nú um stundir.

Fyrstu tveir fundirnir verða haldnir samtímis á Landnámssetrinu og í stjórnsýsluhúsinu á Ísafirði þann 22.ágúst næstkomandi.

Eins og kunnugt er hafa bændur ítrekað bent á að staða þeirra nú sé svo slæm vegna hækkana á aðföngum til búrekstrar að margir sjá sig knúna til þess að bregða búi. Það á sérstaklega við þá sem hafa sérhæft sig í framleiðslu á nautakjöti.

Þá hafa borist fregnir af því að bændur hafi sparað við sig í áburði þetta árið með því að bera minna á tún sín af tilbúnum innfluttum áburði. Ljóst er þó að slíkar ráðstafanir duga ekki nema skammt og þrátt fyrir að ríkið hafi komið með nokkuð myndarlega styrki á grunvelli tillagna spretthóps matvælaráðherra til bænda segja forsvarsmenn þeirra að það fjármagn dugi ekki til að taka á vandanum nema að hálfu leyti. Það má því búast fastlega við að bændur landsins hafi fjölmargt að ræða.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila