Bakarinn selur „Nató-tertu“ – Pantið í dag – sækið á dómsdegi

Þeir sem eru á s.k. Almedalsviku á Gotlandi, þar sem stjórnmálaflokkar, fyrirtæki og áhrifavaldar selja boðskap sinn geta núna pantað Natótertuna hjá Bakaríinu Siesta. Á skiltinu stendur: „Við höfum Nató-tertu: Pantið hér og sækið á dómsdegi.“

Mikill áhugi á Nató-tertunni

Svíþjóð ætti ekki að ganga í NATO. Það finnst bakaranum Clas Möllerström, sem rekur Konditori Siesta í Visby, Gotlandi. Hann hefur sett upp spjald fyrir utan bakaríið, þar sem hann auglýsir „Nató-tertuna“ með mynd af kjarnorkusprengingu.

Í tæp 33 ár hefur hinn 69 ára gamli Clas Möllerström rekið Konditori Siesta í Österport í Visby. Að fá sér kaffi og meðlæti er vinsælt meðal íbúa Visby.

Þegar stjórnmálavikan hófst í Almedalen setti hann út skilti fyrir utan bakaríið og auglýsir „Natótertuna.“ „Pantið hér, sækið á dómsdegi“ stendur á veggspjaldinu sem er myndskreytt með kjarnorkusprengingu.

Þeir sem vonuðust eftir bragðgóðu dökkbláu sætabrauði í Natólitum gripu samt í tómt. Claes Möllerström segir við Samnytt:

„Þetta eru pólitísk skilaboð. Ef þú lest textann skilurðu kannski hvað ég á við? Á dómsdegi borðar enginn tertu, ekki satt? Það hefur verið gífurlegur áhugi og annar hver maður ljósmyndar skiltið.“

Stjórnmálamennirnir hefðu átt að tala við fólkið

Clas Möllerström telur að Svíar séu að gera mistök með því að reyna að gerast aðilar að hernaðarbandalaginu sem er stjórnað af Bandaríkjunum.

„Ég tel að stjórnmálamennirnir hafi keyrt yfir sænsku þjóðina, þeir ættu kannski að tala við fólkið líka. Það eru mín skilaboð. Ég er skýr andstæðingur kjarnorkuvopna og það er það sem ég vil að fólk fari að tala aðeins meira um. Ég er alls ekki á móti byssum en við getum verið án kjarnorkuvopna.“

Möllerström óttast ekki Rússana:

„Mér finnst þeir alls ekki vera nein ógn. Það er ljóst að það er ekki hægt að verja það sem þeir gera en þeir gera nákvæmlega það sama og Bandaríkin hafa alltaf gert. Hver er munurinn?“

Clas Möllerström segist ekki vera pólitískt virkur heldur hafi hann áhuga á samfélaginu og vonast til að fólk „meðtaki boðskapinn um NATO-tertuna.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila