Bandalag Macrons Frakklandsforseta tapar stórt – missir meirihlutann á þingi – flokkur Le Pen sækir fram sem og Vinstribandalagið

Emmanuel Macron Frakklandsforseti er klemmdur í miðjunni og á fimm erfið ár fyrir höndum. Bandalag hans tapaði meirihlutanum í frönsku þingkosningunum á meðan hægri- og vinstrimenn sækja fram. Þjóðfylking Le Pen t.v. vann stórsigur og fær á milli 80-100 þingsæti og fylking vinstri manna hær á milli 170-195 þingsæta. Úrslitin verða endanlega kunn á morgun.

Færri en helmingur kosningabærra kusu

Kjörstaðir lokuðu klukkan 20 á sunnudag og varð fljótt ljóst að valdagrunnur Macrons hafði rýrnað. Bandalag Macron mun trúlega fá á milli 210 og 240 þingsæti. Það þarf 289 þingsæti til að ná meirihluta – og kosninganiðurstaðan var því algjör ósigur fyrir endurkjörinn forseta. David Boati Evrópufréttaritari sænska sjónvarpsins sagði:

„Auðvitað höfðu þeir vonast eftir eigin meirihluta svo Macron gæti framfylgt stefnu sinni án þess að þurfa að gera of miklar málamiðlanir, en svo virðist sem þeir þurfi að semja mikið.“

Elisabeth Borne, forsætisráðherra Frakklands, lýsir því yfir að hafin verði leit að hugsanlegum samstarfsaðilum í vikunni til að mynda ríkisstjórn með meirihluta að baki sér og skapað stöðugleika í framtíðinni. Éric Dupond-Moretti dómsmálaráðherra sagði:

„Við erum stærst en augljóslega eru það vonbrigði að ná ekki meirihluta.

Vinstribandalagið þrýstir á Frjálslynda

Búist er við að vinstribandalagið, undir forystu Jean-Luc Mélenchon, fái á milli 170 og 195 þingsæti og verði þannig mótvægi til vinstri. Mélenchon sagði við stuðningsmenn sína sem hafa líkt og hann barist fyrir vinstri bandalag, að þeim hafi tekist að ná markmiðinu – að svipta Macron forseta meirihluta sínum á þingi:

„Það er algjörlega óvænt og hefur ekki sést áður.“

Þjóðfylkingin hlýtur bestu kosningaútkomu nokkru sinni

Þjóðfylkingin fær á milli 80 og 100 þingsæti, sem er stökk fram á við miðað við lítin þingstyrk áður. Le Pen sagði við stuðningsmenn sína í kvöld:

„Við höfum náð markmiði okkar, að gera Emmanuel Macron að forseta minnihlutahóps án valdstjórnar.“

Jordan Bardella frá Þjóðlegu samfylkingunni sagði:

„Þetta er algjör flóðbylgja. Macron forseti hefur tapað. Hann getur ekki haldið áfram efnahagsstefnu sinni. Hann getur ekki haldið áfram með fólksflutningastefnu sína. Hann getur ekki haldið áfram að framselja vald til ESB.

Sjaldan jafn léleg kjörsókn

Í aðdraganda kosninganna var líklegast að Samvinnubandalag Macron’s fengi hreinan meirihluta en erfitt hefur verið að spá um niðurstöðuna þar sem kosningaþátttaka í ár hefur verið óvenju lítil. Innan við helmingur franskra kjósenda greiddi atkvæði samkvæmt nýjustu könnunum. Kjörsókn var áætluð um 46%.

Jean-Luc Mélenchon segir það merki um „siðferðisbrest“ Macron og að stjórnmálastéttin í heild hafi brugðist kjósendum:

„Frakkland hefur sagt sitt og við verðum að viðurkenna að hlutfallið sem kaus ekki er of stórt. Stór hluti Frakklands veit ekki hvert hann á að snúa sér.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila