Hundrað manns sagt upp hjá Arion banka

Eitt hundrað starfsmönnum hefur verið sagt upp hjá Arion banka en uppsagnirnar hjá bankanum má rekja til skipulagsbreytinga hjá bankanum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka til fjölmiðla nú í morgun.

Fram kemur að 80% þeirra sem sagt hefur verið upp hafi verið að starfa í höfuðstöðvum bankans en hin 20% hafi starfað í útibúum bankans. Í tilkynningunni segir að skipulagsbreytingarnar séu liður í vegferð bankans að settum markmiðum um 50% kostnaðarhlutfall og  arðsemi eiginfjár umfram 10%. Sviðum bankans fækkar um tvö og ýmis verkefni færast til innan bankans með það að markmiði að einfalda starfsemina.

Tekjusvið Arion banka verða þrjú: viðskiptabankasvið, fyrirtækja- og fjárfestingarbankasvið og markaðir. Stoðsvið verða einnig þrjú: fjármálasvið, upplýsingatæknisvið og áhættustýring.


Þá segir í tilkynningunni að breytingarnar muni styrkja samkeppnishæfni bankans og auka arðsemi eiginfjár. Grunnstefna bankans er óbreytt og mun Arion banki áfram veita alhliða fjármálaþjónustu til einstaklinga, fyrirtækja og fjárfesta og vera í fararbroddi um stafræna bankaþjónustu.

Megin breytingin felst í að starfsemi fjárfestingabankasviðs færist á tvö ný svið, annars vegar markaði og hins vegar fyrirtækja- og fjárfestingabankasvið.

Markaðir munu hafa það hlutverk að skerpa áherslur bankans á sviði verðbréfastarfsemi en fyrirtækja- og fjárfestingarbankasvið mun veita fyrirtækjum og stofnunum heildstæða þjónustu varðandi fjármögnun og ráðgjöf.

Þá muni bankinn efla þjónustu við þá sem leita að sem hagkvæmastri fjármögnun m.a. með milligöngu um fjármögnun frá þriðja aðila, svo sem sjóðum og öðrum stofnanafjárfestum.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila