Barnaníðingur vistast utan íbúabyggðar eftir árás á barn – Hætta á að hann misnoti og myrði börn, segir geðlæknir

Héraðsdómur Norðurlands eystra hefur úrskurðað að karlmaður sem haldinn er barnagirnd og er metinn ósakhæfur skuli sæta öryggisgæslu allan sólarhringinn og skuli vera vistaður utan íbúabyggðar eftir að hann réðist á 11 ára barn og hótaði að lífláta það ef gæslumenn sem fylgdu honum létu hann ekki í friði.

Óhætt er að segja að um óvenjulegt mál sé að ræða því fá ef nokkur fordæmi eru fyrir því að menn séu álitnir svo hættulegir að þeir skuli sæta bæði gæslu allan sólarhringinn og að vistast utan íbúðabyggðar til að koma í veg fyrir að þeir komist í tæri við börn.

Karlmaðurinn er ekki nafngreindur í úrskurði Héraðsdóms þar sem hann er úrskurðaður ósakhæfur. Þann 24. nóvember 2015 var maðurinn úrskurðaður ósakhæfur í öðru máli og dæmdur til að sæta öryggisgæslu vegna brots hans gagnvart tveimur ungum drengjum sem hann framdi 15 og 16 ára gamall. Var maðurinn því í öryggisgæslu þegar hann framdi brot það sem hann framdi í þessu máli.

Hefur misnotað börn frá því hann var sjálfur barn

Í dómi er manninum lýst sem mjög ofbeldisfullum sem viti að rangt sé að brjóta gagnvart börnum en að hann geri sér ekki grein fyrir alvarleika þess. Hann hafi langa sögu um að áreita börn og misnota þau kynferðislega allt frá því hann var 11 ára gamall. Kemur fram að ákærði sé heltekinn af barnagirnd sem allt hans líf snúist um. Þessar hvatir stjórni manninum og hegðun hans. Hann hafi engar hömlur og sé ekki fær um að stöðva eigin langanir eða hegðun.

Að mati geðlæknis sem kom að málinu er maðurinn stöðugt hættulegur og fullfær um að skaða barn alvarlega og jafnvel drepa það með beitingu kynferðisofbeldis. Telur geðlæknirninn nánast öruggt að maðurinn muni misnota börn ef hann fái tækifæri til þess. Hann yrði því að vera vistaður ótímabundið í öryggisgæslu og tryggja þurfi að hann muni aldrei geta komið út í samfélagið.

Ræðst á gæslumenn og talar um að drepa og nauðga börnum

Fjöldi atvika eru rakin í úrskurði Héraðsdóms sem varpa ljósi á ofbeldishegðun mannsins og segir þar meðal annars frá því að maðurinn ræði kynlíf með börnum við gæslumenn og tali um að nauðga börnum og drepa, þá beinist langanir hans beinist einnig að dýrum Þá eru fleiri tilvik rakin í matsgerð, en þar kemur fram að maðurinn hefur rifið upp salerni sem boltað var í vegg, rifið upp vask, brotið blöndunartæki af vöskum og sturtum, brotið rúður, veggi, hurðir, skápa, eldavélar, sjónvörp, leikjatölvur o.fl. Til viðbótar er þess getið að gríðarlegur fjöldi alvarlegra atvika hafi verið skráður á undanförum árum vegna háttsemi ákærða í öryggisgæslunni. Þá ráðist hann ítrekað á starfsmenn með ofbeldi og áreiti þá jafnframt kynferðislega með því að þukla kynfæri þeirra.

Fram kemur í málinu að maðurinn sé sterkbyggður og mikill vexti og þurfi minnst þrjá til fjóra fullorðna karlmenn til þess að yfirbuga hann komi til þess.

Sem fyrr segir var maðurinn úrskurðaður til þess að sæta strangri öryggisgæslu en í úrskurðinum segir:

„Af réttaröryggisástæðum ber að herða það úrræði sem hann býr við og flytja hann í búsetu fjarri íbúabyggð. Búsetu ákærða utan lokaðrar réttargeðdeildar verður að binda því skilyrði að ákærði sæti stöðugri gæslu allan sólarhringinn, sé ætíð með gæslumanni utan dyra og komist hvorki í tæri við börn né minni máttar“

Þá var maðurinn dæmdur til að greiða drengnum sem hann réðist á 2,5 milljónir í bætur.

Lesa má úrskurð Héraðsdóms með því að smella hér.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila