Biden sendir vopn til Úkraínu og herskip til Svarta hafs – Rússar safna liði og vara við stórstyrjöld

Bandaríkin senda herskip til Svartahafs til að „skapa fælunaráhrif“ á Rússa vegna ástandsins í Úkraínu.

Sænska útvarpið greindi frá því í dag, að Rússland varar við stórstyrjöld í Austur-Úkraínu og telja ástandið í Úkraínu svo óstöðugt að það ógni rússnesku öryggi. Dmitry Peskov, talsmaður forseta Rússlands, sagði í viðtali við rússneska sjónvarpið Vesti, að „möguleiki sé á nýjum harmleik eins og í Srebrenica og Rússland muni gera allt til að koma í veg fyrir að slíkt endurtaki sig. Krafturinn í þróuninni og hegðun úkraínsku hliðarinnar skapar hættuna á endurupptöku stríðsátaka í fullri stærð.“

Bandaríkin senda herskip til Svarta hafs

Utanríkisráðuneyti Tyrklands staðfesti í dag að herskip Bandaríkjamanna hefðu fengið leyfi til að fara um Bosporussund inn á Svartahaf. Segir í tilkynningu ráðuneytisins að Bandaríkin hafi „upplýst Tyrkland um að tvö herskip myndu fara til Svartahafs og vera þar fram til 4. maí.“ Samkvæmt Motreux samkomulaginu frá 1936 stjórnar Tyrkland allri skipaumferð á Bosphorus og Dardanelles sundunum sem binda Svartahaf við Miðjarðarhaf. Fréttaveitan NTV í Istanbúl sagði herskipin vera USS Roosevelt og USS Donald Cook.

Fulltrúi bandaríska varnarmálaráðuneytisins sagði í viðtali við CNN í gær að „skipin væru send til að sýna stuðning við Úkraínu og jafnframt senda þau skilaboð til Moskvu að Bandaríkin fylgist nákvæmlega með öllu.“

Rússar vöruðu við því þegar í febrúar að heræfingar Bandaríkjamanna á Svartahafi stofnuðu stöðugleika svæðisins í hættu og gætu leitt til hörmunga. Sendiráð Moskvu í Washington sagði þá að „það lítur út fyrir að 6. floti Bandaríkjanna geti ekki beðið eftir að finna óvin í Svartahafi. Þeir eru í örvæntingarfullri leit að yfirskini – nú opinskátt undir merkjum heræfinga – til að auka viðveru á svæðinu. “

Forseti Úkraínu heimsækir hermenn við víglínuna

Allt gerist þetta aðeins nokkrum dögum eftir að Volodymyr Zelensky forseti Úkraínu hvatti NATO persónulega til að auka strax viðveru sína við Svartahaf. Hann sagði í símtali við Jens Stoltenberg, framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins að „Slík varanleg viðvera væri sterkur fælingarmáttur fyrir Rússland, sem heldur áfram stórfelldri vígvæðingu á svæðinu og hindrar siglingu kaupskipa.“

Zelensky fór til víglínunnar í Donbas-héraði á fimmtudag til að stappa stálinu í úkraínska þjóðarherinn, sem þar berst við aðskilnaðarsinna sem Rússar styðja.

Viðbrögð Rússlands við herskipum Bandaríkjamanna á Svartahafi er að senda tíu skip rússneska sjóhersins frá Kaspíahafi til Svartahafs í því skyni að stunda heræfingar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila