Biðlistarnir í borginni sýna það að fólk er ekki í forgangi

Allir þessi biðlistar sem eru í borginn, biðlistar á leikskóla, biðlistar eftir félagslegu húsnæði og fleiri slíkir listar sýna einfaldlega fram á að fólk er ekki í forgangi hjá þeim sem eru í meirihluta í borginni. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Kolbrúnar Baldursdóttur oddvita Flokks fólksins í Reykjavík í síðdegisútvarpinu í dag en hún var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur ásamt Einari Sveinbirni Guðmundssyni sem skipar 3.sæti listans.

Hafa áhyggjur af leigjendum

Kolbrún segir það forgangsatriði að taka á biðlistunum í borginni og brýnast sé að taka á biðlistum eftir húsnæði, enda hafi húsnæðisleysi mjög mikil áhrif á líf og líðan fólks. Því hafi húsnæðisleysi þannig keðjuverkandi áhrif, til dæmis á fátækt, vanlíðan og stöðu fólks í sínu lífi, það eru enging tengsl á milli framboðs á húsnæði og eftirspurnar eins og staðan sé nú, rifist sé um hverja íbúð.

Hún segir flokkinn hafa sérstaka áhyggjur af fólki á leigumarkaði sem sé að greiða allt að 70% ráðstöfunartekna sinna í leigu, þar þurfi að koma til meiri stuðningur og lagabreytingar til þess að koma þessum málum í betra horf. Kolbrún segir að flokkurinn útiloki ekki að styðja hugmyndir um leiguþak, að minnsta kosti tímabundið.

Borgarlínan er bara annað hugtak yfir strætisvagna

Einar segir að Borgarlínan sem til standi að koma á fót sé einungis hugtak yfir hefðbundna strætisvagna, hugtak sem lagi auðvitað ekki þá gríðarlegu umferðarhnúta sem fólk sitji fast í dag eftir dag í borginni. Hann bendir á að borgarlínuvagnar séu hefðbundnir strætisvagnar á gúmmíhjólum og þá liggi auðvitað beinast við að spyrja hvers vegna núverandi strætisvagnakerfi hefur ekki leyst þann vanda sem Borgarlínu er ætlað að leysa, enda um nákvæmlega sama kerfi að ræða.

Bílum heldur áfram að fjölga

Kolbrún segir að allar rannsóknir sýni að einkabílum haldi áfram að fjölga og því þurfi einfaldlega að gera ráð fyrir því, í stað þess að þrengja sífellt að einkabílnum. Einar segir að það sé einfaldlega ekki þannig að þegar Borgarlínan verði tilbúin að fólk stökki úr bílum sínum og inn í Borgarlínuna. Þá gagnrýna þau að Borgarlínan virðist vera upphaf og endir alls þegar kemur að skipulagi og allt skipulag virðist miða við Borgarlínuna.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila