Bílaframleiðendur farnir að efast um ágæti rafmagnsbifreiða

Kristinn Sigurjónsson rafmagnsverkfræðingur fyrrverandi lektor við Háskólann í Reykjavík

Það er margt sem þarf að huga að þegar rafmagnsbílar eru framleiddir, til dæmis drægni þeirra sem getur verið mjög mismunandi eftir akstursaðstæðum og þar stendur hnífurinn í kúnni og því eru stórir bílaframleiðendur farnir að efast um ágæti rafmagns sem orkugjafa á bifreiðar. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Kristins Sigurjónssonar rafmagnsverkfræðings og fyrrverandi lektor við Háskólann í Reykjavík í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Kristinn segir að þegar lithium rafhlöðurnar komu fram á sjónarsviðið hafi kostir þeirra ekki verið sá að þær innihéldu meiri orku en aðrar rafhlöður heldur hafi kostirnir fyrst og fremst falist í að hægt væri að endurhlaða þær. Nú séu þær rafhlöður sem notaðar eru í rafbíla með eins mikilli orku eins og í þær verður komið og lengra verði ekki komist í þeim efnum.

„það er ógjörningur að auka orkuna mikið meira en orðið er einfaldlega vegna þess að þá ertu að skapa þá hættu að það geti kviknað í undir sætunum á bílnum þínum og við verðum að hafa i huga að þegar kviknar í batterínum þá er nær ómögulegt að slökkva í þeim, ef þær aðstæður koma upp að það kvikni í bílnum þá er aðeins tvennt hægt að gera, það er að forða sér og að rifja upp faðir vorið, orkan er svo mikil þegar kviknar í að hún getur hitað bílinn upp í allt að 700 gráður“ segir Kristinn.

Helsti vandi þeirra sem eiga rafbíla er að hafa áhyggjur af því hvort þeir hafi nægt rafmagn til þess að komast á milli hleðslustöðva þegar þeir ferðist út á landi. Kristinn segir að þá þurfi menn að hafa ferðaáætlun sína á hreinu og í sumum tilfellum væri ágætt að vera spámannlega vaxinn því drægnin fer bæði eftir veðri, hvernig sé ekið, hvort margar brekkur séu á leiðinni og hversu mikil umferð sé á veginum, þá skipti einnig miklu máli hvort ekið sé að degi eða nóttu því kaldara sé oft á nóttunni og því þarf að nota miðstöðina meira við þær aðstæður svo ekki sé talað um ljósin sem þarf auðvitað að nota meira við slíkar aðstæður.

Aðrir orkugjafar eins og vetni séu heldur ekki heppilegir enda taki vetni mikið pláss í bifreiðinni. Bensínið sé enn sem komið er besti orkugjafinn sem þekkist og því líkur á að bensínbílnum verði ekki rutt úr vegi svo glatt. Það verður farið frekar í tvinnbílana þar sem unnið er með rafmagnið meðfram bensíninu.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila