Bjánaskapur og sýndarmennska að ræða aðild að Evrópusambandinu

Við búum afskaplega vel af þeim auðlindum sem við höfum bæði af landinu okkar og hafinu í kringum það og erum í öfundsverðri stöðu og sú staða er ekki síst fyrri kynslóðum að þakka. Því þurfum við að koma því skýrt til skila að við viljum enga erlenda kónga yfir okkur eða auðlindir okkar. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðna Ágústssonar fyrrverandi landbúnaðarráðherra í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Guðni segir að í ljósi þess eigi Ísland alls ekki að ganga í Evrópusambandið og segir það vera bjánaskap og sýndarmennsku af þinginu að vera eyða heilu dögunum í að ræða hvort Ísland ætti að sækja um aðild.

„við höfum lent í strandi með þetta áður eins og 2013 þegar Össur Skarphéðinsson gafst upp og lokaði sínum skúffum sem utanríkisráðherra og sagðist ekki komast lengra og það var rétt, hann komst ekkert lengra af því við vorum ekki tilbúin til þess að selja okkar auðlindir lanbúnaðinn og sjávarútveginn í hendur Evrópu og heldur ekki alla okkar stýringu hér í landinu“ segir Guðni.

Hann segir þau rök að Ísland ætti að ganga í Evrópusambandið til þess að geta tekið upp Evru ekki halda vatni því þó að í Evrópusambandið væri komið væri ekkert öruggt með það að Ísland myndi fá að taka upp Evru.

„og hvað er Evran og hvað er krónan? krónan er mælikvarði á þá eign sem við eigum í landinu, öll þau verðmæti sem eru til og þegar dregur úr verðmætum þá veikist krónan og þegar verðmætin eflast þá styrkist krónan, þannig ég held að þetta sé í megin atriðum misskilningur eða hreinlega sýndarmennska og lýðskrum, menn töluðu um að skoða í pakkann, það er enginn pakki til að skoða í, þetta er falsfrétt, það er þannig að Evrópa opnar pakkann og spyr hvort við samþykkjum hann eða ekki, ef við segjum já þá loka þeir honum og opna næsta svo einfalt er það, annað hvort samþykkir landið lög Evrópusambandsins og allt sem því fylgir eða landið er bara ekkert á dagskrá“ segir Guðni.

Guðni segir að ef ríkisstjórnin sé raunverulega að meina eitthvað með því að vilja ekki fara í Evrópusambandið þá væri henni í lófa lagið að ganga til atkvæðagreiðslu um það að fella út þessa gömlu umsókn sem ESB vill ekki viðurkenna að sé ekki í gildi.

„þetta er sundrungarumræða og vitleysa því það er enginn að fara að ganga í Evrópusambandið núna og það er heldur enginn að fara að taka við okkur þar, við stöndum frammi fyrir nýjum heimi á svo mörgum sviðum, við vitum ekkert hvað verður um Evrópusambandið í framtíðinni, orkuverðið í Evrópu er til dæmis orðið svo hátt að menn bara ráða ekki við það“segir Guðni.

Aðspurður um hvort það sé ekki einmitt þess vegna sem ESB vilji að Ísland verði hluti af sambandinu, að þá myndi það verða hluti af orkumarkaði Evrópu og þá væri hægt að sækja hingað orku, segir Guðni svo vera.

„þá gæti ESB ráðið miklu hér og komið hér með miklar framkvæmdir, sett upp vindmylluhauga hér um allt land, mér líst ekkert á það, ég álít að við séum með bestu aðferðirnar við að virkja ár og sækja hitann í jörðu, það er mun ódýrara og mér finnast þessar vindmyllur ljót mannvirki og það er óprýði af þeim og sums staðar hættulegar“

Þegar Guðni var spurður um hvað honum fyndist um niðurskurð í landbúnaði í Evrópu um allt að 30% vegna loftslagsmála og hvort hætta sé á því hér segir Guðni.

„þetta er komið út í tóma vitleysu, ég er nú orðinn gamall og grár og hef lifað af einar fimm eða sex heimsendaspár og síðast var það nú bara um aldamótin þegar það átti að svissast yfir í nýja öld, þá átti allt að farast sem það gerði ekki, svo var það ósonlagið, kjarnorkuafvopnunin í Höfða sem hafði mikil áhrif, svo standa menn frammi fyrir nýjum hlutum eins og stríðinu í Úkraínu, heimurinn er ekkert breyttur, það er enn illska í heiminum og átök milli þjóða

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila