Mikið álag á viðbragðsaðilum í kjölfar óveðursins

Mikið álag hefur verið á viðbragðsaðilum, björgunarsveitum, lögreglu og Landhelgisgæslunni vegna afleiðinga óveðursins sem gekk yfir landið á þriðjudag. Enn eru stór svæði norðanlands án rafmagns og eins og fram hefur komið hefur fólk á sumum stöðum þurft að yfirgefa heimili sín vegna kulda og rafmagnsleysis.

Ófremdarástand hefur einnig skapast hjá bændum vegna rafmagnsleysis norðan heiða en unnið er að viðgerð á raflínum svo hægt sé að koma rafmagni aftur á. Þá hafa á þriðja hundrað manns leitað að pilti sem féll í Núpsá í Sölvadal í gærkvöld þegar hann aðstoðaði bónda við að reyna að losa um krapastíflu í inntaki heimavirkjunar sem sér eina bænum í dalnum fyrir rafmagni.

Samkvæmt upplýsingum eru aðstæður á vettvangi afar erfiðar og hafa björgunarsveitir komið upp búðum á svæðinu til þess að hvíla leitar hópa. Þá hefur varðskipið Þór lagst að bryggju við Dalvík og er þar nýttur sem varaaflsstöð til þess að sjá íbúum Dalvíkur fyrir rafmagni en rafmagnslaust hefur verið þar frá því aðfararnótt miðvikudag.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila