Blaðamannafélagið skorar á stjórnmálaflokkana að að tryggja að á Íslandi fái þrifist frjálsir, sjálfstæðir og óháðir fjölmiðlar

Blaðamannafélagið hefur sent frá sér áskorun til stjórnmálaflokka um að gera það að stefnumáli sínu að tryggja að á Íslandi fái þrifist frjálsir, sjálfstæðir og óháðir fjölmiðlar.

Í tilkynningu frá blaðamannafélaginu segir að rekstrarumhverfi fjölmiðla hafi versnað mikið á undanförnum árum. Ástæðan er fyrst og fremst stórfelldar breytingar á fjölmiðlamarkaði með tilkomu erlendra efnisveitna, samfélagsmiðla og tæknirisa á borð við Facebook og Google sem soga til sín æ stærri hluta af auglýsingafé. Þá hefur sú þróun orðið að færri eru tilbúnir til að greiða fyrir fréttir eða fréttatengt efni vegna þess mikla framboðs sem er af fríu fréttaefni á netinu.

Þá segir að staða fjölmiðla sé ekki einkamál fjölmiðlanna sjálfra heldur varði hún samfélagið allt. Sterkir, öflugir fjölmiðlar séu forsenda þess að hægt sé að veita stjórnvöldum og stórfyrirtækjum nauðsynlegt aðhald. Það ætti að vera markmið hvers lýðræðissamfélags, hverrar ríkisstjórnar, hvers löggjafarþings, að gera það sem í þeirra valdi stendur til að tryggja öfluga, frjálsa og sjálfstæða fjölmiðlastarfsemi í landinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila