Bolsonaro forseti Brasilíu ásakar kvikmyndastjörnuna Leonardo DiCaprio um hræsni í umhverfismálum

Kvikmyndastjarnan Leonardo DiCaprio, sem þekktur er úr kvikmyndum eins og Titanic, tók nýlega umhverfismálin til umræðu á samfélagsmiðlum og fékk hann andsvar frá Jair Bolsonaro, forseta Brasilíu.
Bolsonaro brást við fullyrðingu DiCaprio, sem tísti, að Amazon-regnskógurinn hafi „verið undir árásum ólöglegrar skógareyðingar í höndum vinnsluiðnaðarins undanfarin þrjú ár.“

Bolsonaro tísti:

„Þú aftur, Leó? Með þessu framferði verður þú besti kosningakapallinn minn eins og við orðum það í Brasilíu! Ég segi þér það aftur, losaðu þig við snekkjuna þína áður en þú ávítar heiminn. Ég þekki róttæklinga: þið viljið breyta öllum heiminum en aldrei sjálfum ykkur, svo ég sleppi þér.“

„Okkar á milli sagt, þá er það undarlegt að sjá mann, sem þykist elska plánetuna, veita Brasilíu meiri athygli en eldunum sem skaða Evrópu og sitt eigið land.“

Rangfærslur DiCaprio

Ennfremur hvatti Bolsonaro DiCaprio til að halda áfram að leika sér með Hollywood leikföngin sín á meðan brasilísk stjórnvöld sinna starfi sínu og benti á, að markmiðið væri að uppræta ólöglega eyðingu skóga fyrir árið 2028.

Bolsonaro bað kvikmyndastjörnuna einnig að hætta að dreifa rangfærslum og benti dæmi, þegar DiCaprio notaði mynd frá 2003 til að sýna skógarelda árið 2019.

Ein stærsta einkasnekkjan sem smíðuð hefur verið í Bretlandi

Í janúar var myndum dreift á samfélagsmiðlum af DiCaprio í fríi með vinum sínum á Vava II, stærstu snekkju sem smíðuð hefur verið í Bretlandi. Snekkjan kostaði 150 milljónir Bandaríkjadala og er áætlað að hún framleiði 238 kg af koltvísýringi á mílu – sem er jafn mikið og meðal breskur bíll losar frá sér á tveimur mánuðum.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila