Bólusetja í heimahúsum í kappi við tímann

Bankað uppá með bóluefni

Hjúkrunarfræðingurinn Helena Rún Pálsdóttir bankaði í gær upp á hjá hjónunum Þóri Einarssyni og Renate Einarsson með lítinn hvítan kassa undir hönd. Í honum var bóluefni en Þórir er einn af tvö hundruð skjólstæðingum heimahjúkrunar í Reykjavík sem fengið hafa bólusetningu síðustu daga. Auk þeirra hafa þau sem skráð eru í dagdvalir verið bólusett. Ekki var hægt að bólusetja alla skjólstæðinga heimahjúkrunar í þessari atrennu en þeir eru um 1.000 talsins. 

„Við höfum verið óskaplega einangruð,“ segir Renate, þar sem hún stendur álengdar og fylgist með því þegar Helena undirbýr bólusetninguna. Þau eru bæði fegin því að komið sé að þessari stundu. „Við höfum verið í sjálfskipaðri sóttkví lengi og aðeins hitt fólk í fjarlægð. Það verður gott að losa aðeins um bremsuna,“ segir Þórir og Renate bætir við:

Já, við hittum krakkana en ekki marga aðra. Svo eigum við son sem er búsettur á Írlandi með fjölskyldu sinni. Við höfum ekki séð þau lengi. Nú sjáum við fram á betri tíma.“ 

Sjálf þarf Renate að bíða enn um sinn eftir bólusetningu, því hún tilheyrir ekki þeim forgangshópi sem fékk bóluefni í þessari umferð. Þegar næsti skammtur berst mun Heilsugæslan á höfuðborgarsvæðinu hafa samband við þau semkomið er að. Næsti forgangshópur eru 70 ára og eldri og byrjað verður á þeim elstu. 

Að sögn Rögnu Lilju Garðarsdóttur, deildarstjóra heimaþjónustu á velferðarsviði, hefur bólusetning gengið vel síðustu daga en hún hafi krafist mikillar skipulagningar og góðrar samvinnu. „Það er stemning í fólki yfir þessum áfanga. Þetta hefur vissulega krafist gríðarlegrar skipulagningar og undirbúnings sem starfsfólk hefur sinnt af stakri prýði. Það er ótrúlega flott starfsfólk sem stendur saman í að láta þetta allt saman ganga upp.“

Það eru hjúkrunarfræðingar á Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins sem sjá um að blanda bóluefnið. Hjúkrunarfræðingar á vegum velferðarsviðs Reykjavíkurborgar taka svo við því og bólusetja svo í kappi við tímann, því þeir hafa fimm klukkustundir til að klára bólusetningu. Þó Helena sé á hraðferð lætur hún þó ekki hjá líða að bíða í korter, til að fylgjast með líðan Þóris og vera viss um að engar aukaverkanir geri vart við sig.

Hann finnur ekki fyrir neinu. Seinni skammtinn fær hann eftir þrjár vikur og getur í kjölfar þess farið að umgangast fólk á eðlilegri máta. Hann hlakkar til þess og undir það tekur Helena, sem sér fram á að geta heimsótt skjólstæðinga sína án þess að vera með grímu og gæta fjarlægðar, þegar að því kemur að hún hefur sjálf fengið bólusetningu. „Það verður gott þegar allt verður orðið eðlilegt aftur.“

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila