Borgarstjórnarflokkarnir hafa sýnt að þeir vilja ekki Sundabraut – Hafa þegar eyðilagt vegstæðið um Gufunes

Borgarstjórnarflokkarnir hafa sýnt með gjörðum sínum og athöfnum sínum að þeir vilja alls ekki að Sundabraut verði að veruleika. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Ólafs Kr. Guðmundssonar umferðarsérfræðings og frambjóðanda Miðflokksins í komandi borgarstjórnarkosningum en hann var gestur Magnúsar Þórs Hafsteinssonar í síðdegisútvarpinu í dag.

Ólafur bendir á að það hafi kannski ekki margir tekið eftir því að nánast sé ómögulegt að koma Sundabrautinni þannig fyrir að hún tengist Gufunesinu, einfaldlega vegna þess að þar sé nú komin byggð fyrir fólk sem aðhyllist bíllausan lífstíl.

„það þýðir að þegar farið verður í framkvæmdina þá blossa upp átök og deilur við þá íbúa sem þar er nú þegar búið að koma fyrir, þetta sá maður svo vel þegar maður hefur verið að gera myndbönd fyrir þessa kosningabaráttu því þarna stóð maður nánast í vegstæðinu“

Hann rifjar upp að árið 2006 hafi Dagur B. Eggertsson borgarstjóri látið frá sér fara að Sundabraut væri í forgangi en svo árið 2012 hafi hinum ýmsu samgönguframkvæmdum í borginni verið frestað, þar á meðal Sundabrautinni.

„Dagur B. Eggertsson hefur ekki gert nokkuð annað en að koma í veg fyrir Sundabraut svo ég er alveg hættur að trúa því að meirihlutinn vilji að Sundabrautin verði að veruleika“ segir Ólafur.

Vill prófa að hafa gjaldfrjálsan strætó

Ólafur segir að í stað Borgarlínu ætti að efla strætókerfið en fyrst þyrfti að fá fólk til þess að nota strætó í mun meira mæli og bendir Ólafur á að Vigdís Hauksdóttir hafi nýverið lagt fram tillögu þess efnis að prófa að hafa gjaldfrjálsan strætó í um eitt ár og sjá hvort fólk myndi frekar nýta sér vagnana ef þeir væru fríir, það sé hugmynd sem Ólafi hugnast nokkuð vel. En vilji menn Borgarlínu þá þurfi hún að haldast í við byggðina, til dæmis að ef byggja ætti á Geldingarnesi á næstu tíu árum þá þyrfti að byrja á Borgarlínunni strax.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila