Breytingar hjá utanríkisþjónustunni

Guðlaugur Þór Þórðarson, utanríkisráðherra, hefur ákveðið flutninga forstöðumanna sendiskrifstofa í utanríkisþjónustunni á næsta ári. Var ákvörðun utanríkisráðherra tilkynnt starfsmönnum ráðuneytisins í gærmorgun.
Fram kemur í tilkynningu að um sé að ræða breytingar á sjö sendiskrifstofum. Þær fela ekki í sér skipun nýrra sendiherra heldur er eingöngu um flutninga núverandi sendiherra að ræða.
Geir H. Haarde, sendiherra í Bandaríkjunum, lætur af störfum í utanríkisþjónustunni 1. júlí 2019 og tekur sæti aðalfulltrúa í stjórn Alþjóðabankans fyrir hönd kjördæmis Norðurlanda og Eystrasaltsríkja. Bergdís Ellertsdóttir, sem verið hefur fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum, tekur við stöðu sendiherra í Bandaríkjunum.
Helga Hauksdóttir, sem nú er skrifstofustjóri laga- og stjórnsýsluskrifstofu utanríkisráðuneytisins, verður sendiherra í Danmörku og María Erla Marelsdóttir, skrifstofustjóri þróunarsamvinnuskrifstofu ráðuneytisins, verður sendiherra í Þýskalandi. Þá verður Jörundur Valtýsson fastafulltrúi Íslands hjá Sameinuðu þjóðunum en hann hefur gegnt stöðu skrifstofustjóra alþjóða- og öryggisskrifstofu utanríkisráðuneytisins. Hermann Ingólfsson, sendiherra í Noregi, verður fastafulltrúi Íslands hjá Atlantshafsbandalaginu og tekur Ingibjörg Davíðsdóttir, sendiherra, við sem sendiherra Íslands í Noregi. Breytingarnar taka gildi 1. ágúst 2019.
Benedikt Jónsson, sendiherra, Martin Eyjólfsson, sendiherra, og Anna Jóhannsdóttir, sendiherra, munu koma að utan til starfa í ráðuneytinu á sama tíma.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila