Breytt skipulag gerir ráð fyrir þéttri blandaðri byggð í grænni borg

Tillögur að umfangsmiklum breytingum á Aðalskipulagi Reykjavíkur voru samþykktar í auglýsingu á fundi borgarstjórnar þann 15. júní síðastliðinn. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Í tilkynningunni segir að breytingarnar snúi einkum að stefnu um íbúðarbyggð innan þéttbýlis borgarinnar.

Auk þess eru boðaðar stöku breytingar á völdum atvinnusvæðum og samgönguinnviðum. Tillögurnar gera einnig ráð fyrir því að tímabil aðalskipulagsins verði framlengt til ársins 2040 og í tilefni þess eru sett fram ný megin markmið í völdum málaflokkum.

Drög að tillögunum voru í forkynningu síðastliðinn vetur. Fjölmargar athugasemdir komu fram við drögin og hefur verið komið til móts við margar þeirra í þeirri tillögu sem nú hefur verið samþykkt í auglýsingu. 

þá segir að markmið breytinganna er að skapa þétta og blandaða byggð innan núverandi þéttbýlis Reykjavíkur til ársins 2040.

Með tillögunum er sýnt fram á að þau landsvæði sem við höfum tekið frá undir íbúðarbyggð, atvinnusvæði og samgöngumannvirki í aðalskipulagi undanfarna áratugi, geta dugað okkur til ársins 2040 og sennilega mun lengur. Það þýðir að auðveldara er að framfylgja markmiðum borgarinnar um sjálfbæra þróun, verndun ósnortinna svæði í útjaðri, líffræðilega fjölbreytni, kolefnishlutleysi, vernd grænna útivistarsvæða, vistvænni ferðavenjur og uppbyggingu Borgarlínu og fjölbreyttari og skemmtilegri borg. “ segir í tilkynningunni

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila