646 íbúðir í byggingarferli í Reykjavík frá áramótum

Frá áramótum hafa verið gefin út 646 byggingarleyfi í Reykjavík, flest þeirra vegna byggingu fjölbýlishúsa. Aðeins tíu leyfi voru gefin út fyrir byggingu tvíbýliseigna og fimm vegna byggingu einbýlishúsa á sama tímabili. 


Á árinu 2019 voru gefin út 846 leyfi fyrir byggingu á nýjum íbúðum og því líklegt að nýbyggingar í Reykjavík verði talsvert fleiri í ár en í fyrra. Samtals hefur bygging hafist á 5.680 nýjum íbúðum frá ársbyrjun 2015 og er það mesta uppbyggingartímabil nýrra íbúða í Reykjavík í áratugi.

Árið 2018 stendur upp úr hvað byggingu nýrra íbúða í Reykjavík varðar en á því ári hófst bygging á 1.417 íbúðum í Reykjavík samkvæmt útgefnum byggingarleyfum. Heildarfjöldi íbúðaeininga er hátt í 54.000 í borginni í dag.

Mesta samdráttarskeið í byggingu nýrra íbúða í Reykjavík var frá 2009 til 2011 en þá var hafin smíði á samtals 282 íbúðum yfir tímabilið og þar af einungis tíu íbúðir árið 2010.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila