Tvö innanlandssmit greindust í gær – Tugir í sóttkví

Tveir einstaklingar voru greindir í gær með Covid-19 í tveimur aðgreindum málum. Um svokölluð innanlandssmit er að ræða en í slíkum tilfellum er um að ræða smit sem greinast í einstaklingum sem ekki hafa verið að koma erlendis frá.

Báðir einstaklingarnir sem greindust hafa verið settir í einangrun, en þeir báru báðir einkenni um covid-19. Í öðru tilvikinu hafa nokkrir einstaklingar sem umgengnist hafa þann smitaða verið settir í sóttkví. Í hinu tilvikinu er um að ræða einstakling sem tók þátt í fjálsíþróttamóti í Hafnarfirði um síðustu helgi og hafa um 30 einstaklingar verið settir í sóttkví vegna þess máls.

Í tilkynningu frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra segir að Frjálsíþróttasamband Íslands hafi verið upplýst um stöðuna. Þá biðlar almannavarnadeild til þeirra sem voru á umræddu frjálsíþróttamóti að gæta varúðar og huga að persónulegum smitvörnum. Þá eru þeir einstaklingar sem telja sig hafa einkenni veikinda beðnir að fara í sýnatöku á næstu heilsugæslustöð.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila