Danska þingkonan Marie Krarup hefur lengi óttast að Svíþjóð sé að verða „arabaríki”

Marie Krarup hjá Dansk Folkeparti sagði í viðtali við Fokus fyrir meira en ári síðan að Svíþjóð ætti ekki fallega framtíð ef landið héldi áfram á sömu braut með óhóflegum fólksinnflutningi og slappri innflytjendastefnu. Segir hún Danmörku aldrei fara sömu leið og Svíþjóð: „Við eigum margt sameiginlegt með Svíum og erum í nágrenni hvers annars en þegar Svíar eru í raunveruleikanum að verða arabískt Miðausturland, þá eigum við ekki lengur svo mikla samleið.” Marie Krarup segir að „fólk sem fær hæli á einungis að fá tilfallandi landvistarleyfi og síðan fara aftur heim, þegar það er mögulegt. Svíþjóð veitir ótímabundin landvistarleyfi.”

„Hér er mynd af því sem ég óska að gerist ekki í Danmörku. Þetta er ekki Danmörk” segir Marie Krarup um mynd sem sýnir hundruði múslíma á föstudagsbæn í miðborg Kaupmannahafnar rétt hjá þjóðþingi Dana.

Hvort sem ættbálkasamfélög eru gerð að „arabískri” fyrirmynd eða ekki, þá er ástandið komið á heljarþröm í Svíþjóð með ofbeldi sem sprengt hefur mótstöðu lögreglunnar og glæpamennsku sem breiðst hefur um allt samfélagið. Nýlega var sagt frá glæpahópum sem nýttu sér skattareglur til að fá greiddan virðisaukaskatt frá sænska ríkinu fyrir milljarða sænskra króna. Rætt er um að breyta skattareglum til að stöðva svindlið en það er orðið of seint fyrir þá peninga sem horfnir eru.

Ættbálkarnir hafa glæpamenn í störfum hjá Atvinnumiðlun sænska ríkisins

S.l. föstudag greindi sænska útvarpið frá því að glæpamenn hefðu komist í stöður hjá Atvinnumiðluninni til þess að læra hvernig kerfið virkaði til að notfæra sér velferðarkerfi Svía. Glæpamennirnir vinna þar á vegum einhverra þeirra 40 ættbálka sem farnir eru að ráða miklu í Svíþjóð og lögreglan varar alvarlega við að séu „ógn við allt kerfið.” Að sögn Eva-Lena Edberg deildarstjóra Atvinnumiðlunarinnar hafa glæpamennirnir komist gegnum venjulegt ráðningarferli stofnunarinnar og þegar inn er komið „þá læra þeir reglur okkar og hvernig við störfum innanfrá.”

Yfirvöld eru síðan svikin um að greiða m.a. út falskar launagreiðslur til fyrirtækja sem ráða hreyfihamlað fólk til sín í vinnu. Alls staðar þar sem hægt er að komast í peninga, þar eru glæpamennirnir að sögn fulltrúa Atvinnumiðlunarinnar. Og það sem er verst: „Við erum tilneydd að halda áfram að greiða út peningana vegna þess að við höfum ekki stoð í lögum til að stöðva útborganirnar.”

Stjórnmálaástandið litað af þróuninni

Frá vinstri Sósíaldemókratar, Vinstriflokkurinn, Umhverfisflokkurinn, Móderatar, Miðflokkurinn, Frjálslyndir, Kristilegir Demókratar og Svíþjóðardemókratar.

Ástand glæpahópa, sem hafa náð stjórn á borgarhlutum í Svíþjóð og mynda eigin hliðarsamfélög með eigin réttarfarskerfi og eftirlitsmenn, setur spor á stjórnmálin. Þótt skyndilegar og miklar sveiflur séu ekki í gangi má engu að síður búast við afar harðri kosningabaráttu í Svíþjóð fyrir þingkosningarnar 2022. Grafið t.h. sýnir fylgi stjórnmálaflokka Svíþjóðar núna skv. nýrri könnun Sænska Dagblaðsins. Tveir flokkanna Umhverfisflokkurinn og Frjálslyndir kæmust ekki á þing og Svíþjóðardemókratar, Kristdemókratar og Móderatar eru með meirihluta skv. könnuninni.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila