Drög að nýjum reglum gera ráð fyrir að starfsmenn fyrirtækja verði uppljóstrarar fyrir ríkisvaldið

Drög að nýjum reglum gera ráð fyrir því að starfsmönnum fyrirtækja verði heimilt að gerast uppljóstrarar að eigin frumkvæði og fái þannig heimild til þess að uppljóstra um mögulega refsiverða háttsemi innan fyrirtækisins til aðila innan fyrirtækisins eða til lögregluyfirvalda eða annarra opinberra eftirlitsaðila sem við eiga, til dæmis umboðsmanns Alþingis, ríkisendurskoðanda og Vinnueftirlitsins. Vísað er til þess að reglugerðin sé byggð á lögum um vernd uppljóstrara sem samþykkt voru árið 2020, en drög reglugerðarinnar hafa verið birtar í samráðsgátt og sjá má með því að smella hér.

Þannig mun miðlun upplýsinga eða gagna að uppfylltum tilteknum skilyrðum ekki teljast sem brot á þagnar- eða trúnaðarskyldu starfsmanns. Fyrir starfsmenn ríkis og sveitarfélaga eða fyrirtækja sem eru að 51% hluta eða meira í eigu hins opinbera er þetta þó ekki heimild heldur skylda.

Verndin er bundin því skilyrði að starfsmaðurinn fari að ákvæðum laganna og fylgi þeim málsmeðferðarreglum sem þar eru settar. Meginreglan er að ytri uppljóstrun, til dæmis til fjölmiðla, er ekki heimil nema innri uppljóstrun hafi fyrst verið reynd til þrautar.

Til þess að auðvelda starfsmönnum að nýta sér lögin og til að auðvelda vinnuveitendum að bregðast við miðlun samkvæmt lögunum, gera lögin ráð fyrir að í fyrirtækjum eða á öðrum vinnustöðum þar sem að jafnaði eru 50 starfsmenn á ársgrundvelli verði, í samráði við starfsmenn, settar reglur um verklagið. Reglurnar skulu vera skriflegar og þar skal kveðið á um móttöku, meðhöndlun og afgreiðslu tilkynninga um hugsanleg lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitandans. Þá skulu þær vera aðgengilegar öllum starfsmönnum og mega á engan hátt takmarka rétt þeirra samkvæmt lögunum. 

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila