Drög að nýrri reglugerð sem gerir meiri öryggiskröfur til dagforeldra – Allir dagforeldrar hafi neyðarhnapp

Drög að reglugerð um breytingu á reglugerðum um dagforeldra og gæslu í heimahúsum gerir meðal annars ráð fyrir að auknar kröfur verði gerðar hvað öryggi varðar hjá dagforeldrum, meðal annars er gert ráð fyrir að allir dagforeldrar verði með sérstakan neyðarhnapp sem hægt er að nota þegar upp koma neyðartilfelli. Þá er gert ráð fyrir að horft verði til öryggis barna þegar leyfisveitingar eru í umsóknarferli.

Helstu breytingarnar sem felast í reglugerðinni:

1. Verkaskipting við eftirlit með daggæslu barna í heimahúsum

Í gildandi reglugerð um daggæslu barna í heimahúsum er fjallað um eftirlit félagsmálanefnda með dagforeldrum. Eftir gildistöku laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála, hafa bæði ríkis og sveitarfélög eftirlit með dagforeldrum. Er því lagt til í reglugerðardrögunum að skýra hvað felist annars vegar í innra eftirliti sveitarfélaga með dagforeldrum og hins vegar ytra eftirliti Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála með gæðum þjónustu sem dagforeldrar veita.

2. Farvegur leyfisveitinga til dagforeldra

Við gildistöku laga voru leyfisveitingar til daggæslu barna í heimahúsum fluttar frá félagsmálanefndum sveitarfélaga til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála. Aðlaga þarf ákvæði reglugerðarinnar að þessum breytingum Til að tryggja að þekking félagsmálanefnda sveitarfélaganna á daggæslu í heimahúsum glatist ekki er í reglugerðinni lagður til nýr farvegur leyfisveitinga í reglugerðardrögunum. Hann gerir ráð fyrir því að allar leyfisumsóknir til Gæða- og eftirlitsstofnunar velferðarmála fari til umsagna hjá félagsmálanefndum sveitarfélaga.

3. Aðlögun að nýjum lagareglum um rekstrarleyfi dagforeldra

Nýjar reglur um leyfisveitingar Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála kalla á frekari aðlögun reglugerðarinnar um daggæslu í heimahúsum. Lagt er til að leyfi verið gefin út til allt að fimm ára í senn, en ekki fjögurra, en að gildistími leyfa verði samræmdur þegar tveir einstaklingar starfa saman að daggæslu. Þá er lagt til að stofnunin haldi utan um virk leyfi dagforeldra en ekki ráðuneytið. Jafnframt eru lagðar til aðlaganir á reglum um bráðabirgðaleyfi svo þær samræmist betur ákvæðum laga um Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála. Aðrar breytingar varða einkum orðalag, þ.m.t. að orðið rekstrarleyfi sé notað um leyfisveitingarnar í samræmi við ákvæði hinna nýju laga.

4. Skilyrði til að fá útgefið leyfi – auknar kröfur til öryggis

Lagðar eru til breytingar á skilyrðum til að fá útgefið leyfi til daggæslu í heimahúsum. Í fyrsta lagi er lagt til að gerð verði krafa um að allir dagforeldrar hafi neyðarhnapp. Er talið mikilvægt fyrir öryggi barna í daggæslu, sem í flestum tilvikum eru ómálga, að dagforeldrar geti með einföldum hætti kallað til aðstoð vegna óvæntra atvika, svo sem veikinda og slysa. Í öðru lagi er lagt til að ekki sé heimilt að veita undanþágu frá skilyrði fyrir því að hafa sótt námskeið skv. 20. gr. reglugerðarinnar nema umsækjandi hafi lokið námskeiði í skyndihjálp. Með þessu er lögð áhersla á að mikilvægi þekkingar á skyndihjálp. Í þriðja lagi er lagt til að Gæða- og eftirlitsstofnun velferðarmála afli sakarvottorða um umsækjendur og heimilismenn eldri en 15 ára í stað þess að umsækjendur afli sjálfir slíkra vottorða fyrir heimilismenn eldri en 18 ára og leggi fram í umsóknarferlinu.

5. Breytingar á ráðuneytum og skiptingu stjórnarmálefna

Í reglugerðinni er á nokkrum stöðum fjallað um verkefni félagsmálaráðherra. Í ljósi breytinga embættisheitum ráðherra og skiptingu stjórnarmálefna milli ráðuneyta í Stjórnarráði Íslands er lagt til í reglugerðinni að þar sé annað hvort vísað til ráðherra, án þess að embætti hans sé tilgreint, eða verkefni ráðherra sem fer með yfirstjórn málefna barna og ungmenna í félagsþjónustu sveitarfélaga.

6. Aðrar aðlaganir

Lagðar eru til aðlaganir sem tengjast breytinga á reglugerðum.

Sjá nánar um málið með því að smella hér.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila