Efling segir viljayfirlýsingu ekki stöðva starfsmannaleigur í því að koma illa fram við starfsmenn og beita þá harðræði

Stéttarfélagið Efling hefur sent frá sér tilkynningu vegna umræðu í morgunútvarpi Rásar2 þar sem rætt Halldór Benjamínsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins ræddi um viljayfirlýsingu um að taka upp gæðavottorð starfsmannaleiga.

Í tilkynningu Eflingar segir að Eflingu sé kunnugt um viljayfirlýsingu þess efnis sem unnin var milli Gylfa Arnbjörnssonar og Samtaka atvinnulífsins, sú yfirlýsing hafi hins vegar aldrei komið til framkvæmda, auk þess sem Efling telur slík úrræði gagnslaus

Yfirlýsingin um gæðavottun á starfsmannaleigum hefur verið grannskoðuð af þeim sem best þekkja til brotastarfsemi á vinnumarkaði hjá Eflingu. Hún hefur verið metin í ljósi annarra slíkra samkomulaga og fyrirliggjandi eftirlitsheimilda í vinnustaðaeftirliti verkalýðshreyfingarinnar og hjá hinu opinbera. Umrædd viljayfirlýsing felur að mati Eflingar ekki í sér neinar raunverulegar takmarkanir á möguleikum starfsmannaleiga til að beita starfsfólk sitt svikum og harðræði. Efling horfir meðal annars til reynslunnar af verkefninu „Vakinn“ sem ætlað var að gæðavotta ferðaþjónustufyrirtæki. Verkalýðshreyfingin dró sig út úr verkefninu þar sem það skilaði ekki tilætluðum árangri


Þá beinir Efling spjótum sínum að Samtökum Atvinnulífsins sem að sögn Eflingar eru svarnir andstæðingar þess að spornað sé við óheiðvirðu hátterni starfsmannaleiga

“ Efling minnir á framgöngu lögmanns SA í fréttum í júlí 2019 þar sem hann mótmælti og gerði lítið úr viðleitni Eflingar til að verja réttindi rúmenskra starfsmanna hjá starfsmannaleigunni Menn í vinnu (í dag Seigla ehf.). Í ljósi þess að SA hefur þannig tekið til opinberra varna fyrir landsþekkta brotamenn í starfsmannaleigugeiranum telur Efling að yfirlýsing um áhuga SA á samstarfi um „heilbrigðan vinnumarkað“ hjá starfsmannaleigum sé ekki hægt að taka alvarlega.“


Efling segir niðurstöðu sína vera þá að viljayfirlýsing SA um starfsmannaleigur sé einungis hvítþvottur

til þess fallinn að ákveðnar starfsmannaleigur innan SA geti fegrað ímynd sína án raunverulegra úrbóta fyrir fórnarlömb brotastarfsemi á vinnumarkaði. Efling bendir Samtökum atvinnulífsins á að þeim er frjálst að gangast í ábyrgð fyrir heiðarleika og löghlýðni tiltekinna fyrirtækja að eigin frumkvæði

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila