Eitrað fyrir Robert Spencer á Íslandi

Fyrirlesarinn Robert Spencer.

Eitrað var fyrir fyrirlesaranum Robert Spencer sama kvöld og hann hélt fyrirlestur á Grand hotel. Þetta kemur fram í pistli Spencers í vefmiðlinum Frontpagemag.com. Í pistlinum greinir Spencer frá því að eftir fyrirlesturinn hafi hann haldið á veitingahús til þess að halda upp á vel heppnaðan fund en þar hafi atburðarrás átt sér stað sem hafi sett heilsu Spencers í hættu “ Á þessum þéttsetna stað var fljótlega tekið eftir mér. Ungur Íslendingur kallaði nafn mitt, tók í hendina á mér og sagði að hann væri mikill aðdáandi. Skömmu síðar kom annar íbúi þessa fræga virðulega og kurteisa lands og hann sagði einnig nafn mitt, tók í hendina á mér og sagði „Fuck you“. Við tókum þessari dásamlegu íslensku kveðju sem tákn um að yfirgefa staðinn. En skaðinn var skeður. Um það bil fimmtán mínútum síðar, þegar ég kom á hótelherbergið mitt, fann ég til dofa í andliti, höndum og fótum. Ég byrjaði að skjálfa og kastaði upp. Hjartslátturinn jókst hættulega mikið. Ég eyddi nóttunni á spítala í Reykjavík. Mér varð fljótlega ljóst, hvað hafði gerst sem síðar sannaðist með sýnatöku sem hafði verið gerð á spítalanum. Einn af Íslendingum staðarins sem nálguðust mig, sennilega sá sem sagðist vera mikill aðdáandi minn, þar sem hann kom miklu nær mér en hinn maðurinn hafði laumað eitri í glasið mitt. Ég var ekki og er ekki á neinum lyfjum þannig að engin önnur skýring er á því, hvernig efnin komust í æðar mínar„, skrifar Spencer.

Hefur kært málið til lögreglu

Robert Spencer segir frá því að hann hafi í framhaldinu kært málið til lögreglu og fjótlega hafi lögregla komist að því hver maðurinn var sem hafði eitrað fyrir Spencer og segist hann búast við því að rætt verði við viðkomandi aðila fljótlega ef ekki sé þegar búið að því. Þá segir Spencer að hann hefði mátt búast við einhverri uppákomu á borð við þessa “ Ég hefði mátt búast við þessu. Eftir allt, þá hafði heimsókn mín valdið regni háðsyrða  í íslenskum fjölmiðlum, öll sótt úr smiðju vinstri manna í Bandaríkjunum. Sérhver frásögn um heimsókn mína sagði sömu sögu og fullyrðingar SPLC (Southern Poverty Law Center, mannréttindasamtök í Montgomery/gs) nefnilega að ég haldi „hatursræður“ sem er huglægt mat notað til að þagga niður í þeim sem hugsa öðruvísi en valdhafarnir, að ég sé bannfærður í Bretlandi án þess að minnst sé á það, að ég var bannfærður fyrir að segja að íslam innihaldi ofbeldiskenningar (álika eins og að verða bannfærður fyrir það að halda því fram að vatn sé blautt) og fyrir þann glæp að styðja Ísrael og einnig þá röngu ásökun að ég hafi hvatt fjöldamorðingja Noregs Anders Breivík til fremja morðin ( raunverulega ber ég ekki meiri ábyrgð á morðum Breivíks en Bítlarnir á morðum Charles Mansons). Eftir fundinn var stór mynd af Breivík birt í einni greininni en ekki var skrifað eitt einasta orð um það sem ég hafði sagt um kvöldið„.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila