Ekki nógu stöðugur vöxtur í Hafnarfirði – Vill sjá mun meira byggt

Sú staðreynd að miklar sveiflur hafa verið í íbúafjölda Hafnarfjarðar sýna að það er ekki nógu stöðugur vöxtur í bænum og því þarf að breyta. Þetta var meðal þess sem fram kom í máli Guðmundar Árna Stefánssonar fyrrverandi bæjarstjóra Hafnarfjarðar sem nú skipar 1.sæti Samfylkingarinnar fyrir komandi sveitastjórnarkosningar, í síðdegisútvarpinu í dag en hann var gestur Arnþrúðar Karlsdóttur.

Guðmundur segir að það gangi ekki upp til lengdar að haga byggingaráformum eins og verið hefur þar sem byggt hafi verið eitt árið og svo ekkert á því næsta, þetta valdi sveiflum í íbúafjölda eins og dæmin sanni og hefur neikvæð áhrif á fasteignaverð í bænum sem fari hækkandi með degi hverjum.

Bærinn getur boðið ódýrar lóðir

Hann vill fara í að byggja húsnæði af ýmsu tagi til þess að koma til móts við þá þörf sem skapast hefur.

„Það er ekki fyrr en á allra síðustu mánuðum rétt fyrir kosningar að það sé farið að byggja og þær byggingar eru í of miklu mæli of dýrar og aðeins fyrir þá sem eiga mikinn pening, ég vil ekki sjá þetta svona, ég vil sjá miklu fleiri valkosti til dæmis fyrir ungt fólk, þarna verði búseti og önnur slík félög, félagslegt húsnæði, þetta hefur ekki verið valkostur sem hægt sé að ganga að og þegar þú selur lóðir og ferð í jafnvel í útboð á þeim þá gefur augaleið að þær verða mjög dýrar.

Hafnarfjörður á ekki að þurfa að horfa upp á fækkun íbúa

Hann bendir á að sveitarfélög geti vel aðstoðað við að koma upp ódýru húsnæði, til dæmis með því að fá óhagnaðardrifin félög til þess að byggja, þá leggi bærinn til ódýrar lóðir og félögin sjái til þess að þær verði reistar og þær svo seldar á kostnaðarverði, bærinn gæti jafnvel styrkt byggingu þessara íbúða ef verið sé til dæmis að byggja fyrir ákveðna viðkvæma hópa.

„þesssar áherslur hafa ekki verið hingað til í Hafnarfirði og þessu vil ég breyta og setja í gírinn, Hafnarfjarðarbær á ekkert að þurfa horfa upp á fækkun íbúa“ segir Guðmundur Árni.

Hann segir að það megi byggja meðal annars upp á svæðum nálægt Krísuvíkurvegi og verið sé nú þegar að vinna í þeim málum en stefnan hjá meirihlutanum hafi verið að útdeila lóðum til stórgrósera sem fá úthlutað heilu og hálfu hverfunum sem verður til þess að þeir reyni að hámarka nýtingu svæðana með því að byggja þétt og græða sem mest á þeim.

Stjórnmálin ekki svo ólík íþróttunum

Guðmundur Árni er reynslubolti þegar kemur að stjórnmálum því eins og fyrr segir var bæjarstjóri Hafnarfjarðar um árabil og þá sat hann á ráðherrastóli þegar hann var ráðherra heilbrigðis og tryggingarmála, gengdi sendiherrastöðu í Svíþjóð, Bandaríkjunum og víðar, auk þess að vera handboltakempa en Árni segir að stjórnmálin séu ekki mjög ólík íþróttunum því þau snúist ekki eingöngu um að keppa heldur treysta einnig á samherja sína því það sé fyrst og fremst samvinnan sem skiptir máli.

„svo er manni ekkert illa við andstæðingana sína, maður annað hvort tapar eða vinnur, en yfirleitt vann maður nú alltaf“segir Guðmundur.

Guðmundur segist hafa notið þess mjög að fá að þjóna sem sendiherra, þar hafi hann hitt og kynnst mikið af fólki og kerfinu í þeim löndum sem hann gengdi sendiherrastöðu. Hann segir að þegar hann var á Indlandi hafi hann fundið vel fyrir því hvað samfélagið var fjölmennt.

„ég var í Delhi þar sem búa um 30 milljónir manna og það er þannig að þú ert aldrei einn þarna, það er ekki fyrr en þú lokar hurðinni á svefnherberginu að þú ert loksins einn, það er alltaf einhvers staðar fólk nærri þér, þetta tók á að sjá þessa misskiptingu, öll fátæku börnin og svo þetta gríðarlega ríkidæmi“

Rifjar upp söluna á símanum

Guðmundur rifjaði upp söluna á símanum á sínum tíma þegar hann sat á þingi og hvernig fé sem fékkst fyrir söluna átti að nota til að reisa nýjan Landspítala og Sundabraut, fé sem aldrei fór í þau verkefni.

„ég þráspurði um þetta og það var alltaf verið að halda því fram að það ætti að byrja á verkefnunum á morgun en ekkert varð úr, en það má ekki gleyma einum vinkli í því máli, það er að sú sala er eiginlega spegilmynd þess sem hefur gerst með Íslandsbanka núna, þetta klúður og sú froða sem þar hefur átt sér stað, það var þó meira fyrir opnum tjöldum þó þegar Halldór Ásgrímsson heitinn og Davíð Oddsson og þeirra flokkar skiptu bara góssinu á milli sín, annar fékk einn banka og hinn fékk hinn, Landsbankinn fór til Sjálfstæðisflokksins og Iðnarbankinn og það samkrull sem síðar varð Kaupþing Banki fór til Framsóknar og þessu var bara skipt upp og þetta var selt fyrir lítið sem ekkert, svo fór þetta allt á hvínandi kúpuna 2008 og hér lá við þjóðargaldþroti“

Segir Guðmundur og bætir við að svona færi sagan svolítið í hringi en aldrei hefði hann þó átt von á því að menn væru enn á þeim stað að Sundabrautarmálið væri enn fast á árinu 2022.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila