Endurskoðun samnings um nautgriparækt í höfn

Frá undirritun samningsins

Fulltrúar Bændasamtaka Íslands og stjórnvalda hafa skrifað undir samkomulag um endurskoðun á samningi um starfsskilyrði nautgriparæktar. Markmið samkomulagsins er að stuðla að framþróun og nýsköpun í nautgriparækt. Áhersla er lögð á rannsóknir og menntun ásamt sjálfbærari og umhverfisvænni framleiðslu. Samkomulagið er liður í endurskoðun samnings um starfsskilyrði nautgriparæktar frá 19. febrúar 2016.

Fallið verður frá niðurfellingu heildargreiðslumarks sem átti að taka gildi þann 1. janúar 2021 og mun því greiðslumark gilda áfram út samningstímann. Greiðslumark heldur sér þar af leiðandi sem kvóti sem tryggir forgang að innanlandsmarkaði og sem viðmiðun fyrir beingreiðslur. Viðskipti með greiðslumark verða leyfð að nýju frá og með árinu 2020 og munu þau byggja á tilboðsmarkaði sem er sama markaðsfyrirkomulag og gilti á árunum 2011-2016. Vissar takmarkanir verða á viðskiptum með greiðslumark sem verða útfærðar nánar í reglugerð.

Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir samninginn vera mikilvægt skref í þróun nautgriparækt á íslandi

Með þessu samkomulagi er verið að stíga mikilvæg skref fyrir frekari framþróun íslenskrar nautgriparæktar, m.a. með því að viðhalda kvótakerfi í mjólkurframleiðslu sem hefur ýtt undir þá miklu hagræðingu sem orðið hefur í greininni til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Þá er ekki síður mikilvægt fyrir hagsmuni neytenda að samstaða er um að efla og tryggja forsendur til samkeppni við vinnslu mjólkurafurða og því verður gerð greining á tækifærum til frekari aðskilnaðar milli söfnunar og sölu á hrámjólk frá vinnslu mjólkurafurða og öðrum rekstri. Samhliða er stefnt að því að stýritæki við verðlagningu mjólkurafurða verði þróuð til meira frjálsræðis með því að taka upp nýtt fyrirkomulag í stað Verðlagsnefndar búvöru, enda er núverandi fyrirkomulag að mörgu leyti tímaskekkja. Loks er rétt að fagna sérstaklega þeirri sterku og metnaðarfullu stefnumörkun sem bændur og stjórnvöld sameinast um að íslensk nautgriparækt verði að fullu kolefnisjöfnuð eigi síðar en árið 2040.

Arnar Árnason, formaður Landssambands kúabænda telur samninginn vera gæfuskref fyrir nautgriparæktun á Íslandi

Ég tel að hér séum við komin með samning sem er greininni til mikilla heilla. Við erum að festa greiðslumark í sessi og tryggja stýringu á framleiðslu mjólkur, sem hefur sýnt sig að er markaðslega afar mikilvægt og er auk þess samkvæmt vilja 90% greinarinnar. Einnig erum við kúabændur hér að leggja okkar af mörkum í loftslagsmálum með metnaðarfullum markmiðum um kolefnisjöfnun á næstu árum.“

Athugasemdir

athugasemdir

Deila