Feneyjarnefndin telur að breyta þurfi stjórnarskrárfumvarpi forsætisráðherra

Feneyjarnefnd Evrópuráðsins telur að breyta þurfi stjórnarskrárfrumvörpum forsætisráðherra þar sem viss veigamikil atriði í þeim eru of óljós. Athygli vekur að þessi sömu frumvörp hvatti Guðni Th. Jóhannesson forseti Íslands þingið til að samþykkja og lauk þeim orðum sínum að ef það ekki gerðist yrði það þinginu til vansa.

Meðal þess þeirra atriða sem Feneyjarnefndin gerir athugasemdir við eru breytingar á kafla um forseta lýðveldisins og hlutverk framkvæmdavaldsins, ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur og ákvæði um náttúruauðlindir og umhverfisvernd.

Hér að neðan má sjá þau atriði sem Feneyjarnefndin gerir athugasemdir við.

Helstu ábendingar um efni frumvarpanna eru þessar:

  • Breytingar á kafla um forseta lýðveldisins og hlutverk framkvæmdavaldsins séu almennt jákvæðar og í samræmi við alþjóðleg viðmið. Sum ákvæðin þurfi að vinna frekar til að koma í veg fyrir óvissu í framkvæmd.
    • Koma ætti á ferli til að ógilda ákvörðun starfsstjórnar sem telst ekki nauðsynleg í skilningi frumvarpsins.
    • Varðandi ráðherraábyrgð sé með frumvarpinu of mikið vald framselt í hendur löggjafans. Nánar ætti að kveða á um ýmis efnisatriði varðandi ráðherraábyrgð í stjórnarskrá.
    • Þá sé með frumvarpinu gengið of langt í að mæla fyrir um sjálfstæði ríkissaksóknara líkt og um dómara væri að ræða.
  • Ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem almenningi verði gefinn kostur á að hafa áhrif á löggjöf er fagnað.
    • Samræma þurfi ákvæði frumvarpsins þeim reglum sem gilda um synjunarvald forseta.
    • Skýra þurfi betur hvað átt sé við með lögum sem ætlað er að uppfylla alþjóðlegar skuldbindingar og ályktunum sem hafi réttaráhrif eða séu stefnumótandi.
    • Sjá þurfi til þess að Alþingi geti ekki samþykkt lög að nýju sem felld hafa verið í þjóðaratkvæðagreiðslu, að minnsta kosti á sama kjörtímabili.
    • Afnema beri synjunarþröskuld frumvarpsins.
  • Ákvæðum um náttúruauðlindir og umhverfisvernd er fagnað og þau sögð í samræmi við viðeigandi viðmið.
    • Skýra þurfi betur tengsl frumvarpanna tveggja, þ.e. frumvarps um náttúruauðlindir og frumvarps um umhverfisvernd.
    • Varðandi náttúruauðlindir þurfi að skýra frekar hvað átt sé við með þjóðareign og tengslum við hefðbundinn eignarrétt. Sjá þurfi til þess að hægt sé að bera undir dómstóla ágreining um gjaldtöku og nýtingu í ábataskyni.
    • Varðandi umhverfisvernd þurfi að skýra betur hugtökin varúð og langtímasjónarmið byggð á sjálfbærni. Jafnframt þurfi að skýra ábyrgð einstaklingsins og samábyrgð allra á umhverfisvernd og árétta skyldur ríkisins í þessu efni. Skýra þurfi gildissvið og eðli réttar til heilnæms umhverfis. Loks sé rétt að kveða sérstaklega á um eftirlit dómstóla með réttindum og skyldum á umhverfissviðinu.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila