Fitch Ratings staðfesti A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs með stöðugum horfum

Matsfyrirtækið Fitch Ratings birti fyrir helgi mat á lánshæfi ríkissjóðs. Lánshæfiseinkunn er óbreytt í A og horfur eru stöðugar.

Í fréttatilkynningu Fitch segir að A lánshæfiseinkunn ríkissjóðs endurspegli mjög háa landsframleiðslu á mann, góða stjórnarhætti og hátt þróunarstig sem er sambærilegri við lönd með „AAA“ og „AA“ lánshæfiseinkunn. Hagstæð lýðfræðileg samsetning landsmanna (hlutfall fólks á vinnufærum aldri var 65% árið 2020) styður enn frekar við hagvaxtarhorfur. Mikil en lækkandi skuldabyrði hins opinbera, smæð hagkerfisins og einsleitni útflutnings sem eykur áhættu gagnvart ytri áföllum og greiðslujöfnuði, halda aftur af lánshæfiseinkunninni.

Efnahagsbatinn hefur styrkst á árinu 2022 vegna innlendrar eftirspurnar og trausts útflutningsvaxtar. Hagkerfið hefur sýnt seiglu gagnvart alþjóðaorkukrísunni og gerir Fitch ráð fyrir að svo verði áfram. Eldsneytis- og matvælaverð hefur hækkað en kaupmáttur heimilanna og framlegð iðnaðar verða fyrir minni áhrifum af hærri orkukostnaði en annars staðar í Evrópu. Vísbendingar eru um að verðbólga hafi náð hámarki í kjölfar vaxtahækkana Seðlabankans og beitingar þjóðhagsvarúðartækja. Fitch gerir ráð fyrir að halli hins opinbera lækki vegna meiri tekna en búist var við og eftir því sem stuðningsaðgerðir vegna heimsfaraldursins renna sitt skeið. Fitch gerir einnig áð fyrir að skuldir hins opinbera lækki l sem hlutfall af landsframleiðslu fram til ársins 2024.

Ísland hefur UFS* einkunn upp á ‘5[+]’ fyrir bæði pólitískan stöðugleika og réttindi annars vegar og fyrir réttarríkið, gæði stofnana og regluverks auk stjórnunar á spillingu, hins vegar.

Mikil og viðvarandi lækkun á hlutfalli ríkisskulda af landsframleiðslu, t.d. með því að áætlun um aðhald í ríkisfjármálum verði framfylgt, viðvarandi hagvexti yfir tíma, eða að efnahagsbatinn verði viðvarandi eftir árið 2022 vegna aukinnar fjölbreytni í útflutningi án þess að skapa þjóðhagslegt ójafnvægi gætu haft jákvæð áhrif á lánshæfiseinkunn ríkissjóðs.

Vísbendingar um að stefnan í efnahags- og ríkisfjármálum leiði til þess hækkunar skuldahlutfalls ríkissjóðs eða veikari hagvaxtarhorfur eða efnahagsáfall, t.d. vegna áfall vegna samdráttar í ferðaþjónustu, viðvarandi leiðréttingar á fasteignamarkaði og verulegra neikvæðra áhrifa á bankakerfið gætu leitt til lægri lánshæfiseinkunnar.

*UFS – Umhverfis- og félagslegir þættir og stjórnarhættir (enska: ESG-Environment, Social, Governance)

Deila