Fjárlagafrumvarpið: Tekjuskattur verður lækkaður fyrr

Bjarni Benediktsson kynnti fjárlagafrumvarpið á blaðamannafundi í dag.

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra kynnti í morgun fjárlagafrumvarp fyrir árið 2020 en það verður lagt fram á Alþingi þriðjudaginn 10. september næstkomandi 

Meðal stærstu tíðinda frumvarpsins er að tekjuskattur einstaklinga verður lækkaður hraðar en áform voru um, þannig að lækkunin kemur að fullu fram árið 2021 í stað 2022.

Við þessa aðgerð hækka ráðstöfunartekjur þeirra tekjulægstu um rúmlega 120 þúsund krónur á ári. Er heildarumfang hennar á ári um 21 ma.kr. sem samsvarar um 10% af tekjum ríkisins af tekjuskatti einstaklinga. Í tilkynningu segir að þetta sé mikilvægur liður í því að styðja við heimilin þegar hægir á í atvinnulífinu.

Auk lækkunar tekjuskatts kemur til framkvæmdar seinni hluti 0,5 prósentustiga lækkunar tryggingagjalds, en gjaldið var lækkað um 0,25 prósentustig í upphafi árs 2019. Um áramót hefur tryggingagjald því verið lækkað frá árinu 2013, úr 7,69% í 6,35% sem styður við atvinnusköpun og rekstrargrundvöll fyrirtækja.


Þá er gert ráð fyrir fjölmörgum öðrum atriðum í frumvarpinu og hér fyrir neðan er stiklað á því helsta:

Framundan er stórsókn í vegamálum og stefnt er að kostnaðarþátttöku í flugfargjöldum innanlands fyrir íbúa landsbyggðarinnar.

Orkuskipti verða styrkt með skattaívilnunum og styrkjum úr Orkusjóði. Framlög til loftslagslagsmála hækka og renna meðal annars til bindingar kolefnis með skógrækt, landgræðslu og endurheimt votlendis, en einnig aukast framlög til landvörslu og miðhálendisþjóðgarðs.

Undirbúnar verða aðgerðir sem miða að því að bæta mönnun í hjúkrun, áfram verður unnið að eflingu heilsugæslunnar sem fyrsta viðkomustaðar, og uppbyggingu hjúkrunarrýma.

Unnið er að því að auka gæði í þjónustu við fötluð börn og foreldra þeirra og framlög aukin í samræmi við fyrri áform til að bæta kjör öryrkja. Stuðlað verður að atvinnuþátttöku aldraðra, réttur foreldra til fæðingarorlofs lengdur og framlög til barnabóta aukin.

Einnig verða framlög tryggð til húsnæðismála í tengslum við nýlega lífskjarasamninga og boðaðar eru aðgerðir til að bregðast við húsnæðisvanda á landsbyggðinni.

Smelltu hér til þess að skoða fjárlagafrumvarpið

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila