Flokkur fólksins ætlar ekki að selja fólki neinar draumsýnir

Flokkur fólksins mun eftir sem áður einbeita sér að því að þjóna fyrst og fremst fólkinu og leggja þunga áherslu á velferðarmál en ekki selja fólki neinar draumsýnir. Þetta var meðal þess sem fram kom í þætti Flokks fólksins í dag en þar ræddi Inga Sæland við frambjóðendurna Helgu Þórðardóttur, Einar Sveinbjörn Guðmundsson og Rúnar Sigurjónsson.

Í þættinum ræddu frambjóðendurnir um hvernig flokkurinn hafi verið jaðarsettur af meginstraums fjölmiðlum, rétt eins og gert hefur verið við þá hópa sem flokkurinn berst fyrir. Flokkurinn leggi áherslu á að selja fólki ekki einhverjar draumsýnir sem eiga að leysa eitthvað í framtíðinni heldur vilji flokkurinn forgangsraða upp á nýtt þar sem forgangsröðunin í Reykjavík algjörlega komin á hvolf.

Einar Sveinbjörn benti á dæmi þess.

„það er ekki verið að sinna börnum sem bíða eftir að komast til skólasálfræðinga, það eru 1900 börn sem bíða í biðlistaborginni Reykjavík og þessu þarf að breyta“ segir Einar.

Rúnar segir að hann sé einn af þeim sem þurfti að alast upp við fátækt og segist nú tilheyra millistéttinni í dag sem í raun hafi það ekki svo gott því það sé einmitt millistéttin sem sé með hin margumtöluðu breiðu bök sem bera oftast hitann og þungann í samfélaginu.

Inga benti á í þættinum að aðrir flokkar séu farnir að taka upp mál sem Flokkur fólksins hafi talað fyrir og gert að sínum og varaði Inga kjósendur við því að láta slík gylliboð annara flokka glepja sig, þeir flokkar væru einungis að skreyta sig með stolnum fjöðrum

„við skulum því varast eftirlíkingar“ segir Inga.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila