Flokkur fólksins leggur fram frumvarp um afnám búsetuskerðinga

Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins mælir fyrir frumvarpinu á Alþingi í dag.

Guðmundur Ingi Kristinsson þingmaður Flokks fólksins mun í dag mæla fyrir frumvarpi um afnám búsetuskerðinga í almannatrygginakerfinu svo þeir lífeyrisþegar sem búi erlendis séu ekki skertir vegna búsetu sinnar.

Í greinargerð með frumvarpinu segir að  réttur til almannatrygginga á Íslandi sé skertur hafi hinn tryggði verið búsettur erlendis á milli 16 og 67 ára aldurs. Fjöldi fólks líður því skerðingar á lífeyri sínum vegna búsetu erlendis. Þessar skerðingar eru í dag framkvæmdar óháð því hvort fólk á rétt á greiðslum frá erlendu ríki vegna búsetu sinnar þar.

Í greinargerðinni er vísað til þess að umboðsmaður Alþingis hafi komist að þeirri niðurstöðu að aðferðarfræði sem Tryggingastofnun hafi beitt við ákvarðanatöku um búsetuhlutfall hafi verið ólögmæt

„Þar að auki komst Héraðsdómur Reykjavíkur að þeirri niðurstöðu í sumar að óheimilt hefði verið að skerða sérstaka framfærsluaðstoð þar sem reglugerð ráðherra hafi skort lagastoð.“ segir í greinargerðinni.

Til að koma í veg fyrir slíka mismunun leggi flokkurinn til að einungis verði heimilt að skerða réttindi almannatrygginga vegna búsetu þegar ljóst liggur fyrir að viðkomandi eigi rétt á og njóti sambærilegra réttinda erlendis frá vegna búsetu þar.

„Þannig yrði komið í veg fyrir grimmilegar búsetuskerðingar gagnvart öryrkjum og ellilífeyrisþegar áður búsettir erlendis fengju 100% réttinda sinna en ekki 90%.“ segir í lokaorðum greinargerðarinnar með frumvarpinu.

Deila