Flokkur fólksins leggur fram þingsályktunartillögu um afturköllum ESB umsóknar

Inga Sæland þingmaður og formaður Flokks fólksins.

Inga Sæland formaður Flokks fólksins lagði fram þingsályktunartillögu þar sem gert er ráð fyrir að ríkisstjórninni verði falið að draga til baka aðildarumsókn Íslands að ESB.

Eins og kunnugt er sendi Gunnar Bragi Sveinsson þáverandi utanríkisráðherra bréf til formanns ráðherraráðs Evrópusambandsins og framkvæmdastjóra nágrannastefnu og aðildarviðræðna sambandsins þess efnis að ríkisstjórn Íslands hefði engin áform um að hefja aðildarviðræður að nýju og að ekki bæri að líta á Ísland sem umsóknarríki. Hins vegar hafi Alþingi ekki samþykkt með formlegum hætti að draga umsóknina til baka.

Í framhaldinu lýsti talsmaður stækkunardeildar Evrópusambandsins því yfir að sambandið liti ekki svo á að Ísland hefði dregið aðildarumsóknina til baka og að bréfið væri ekki ígildi uppsagnar, því hefur síðan ríkt óvissa um hvort umsóknin hafi verið dregin til baka en á heimasíðu Evrópusambandsins er sagt að breytingar hafi verið gerðar á verklagi í kjölfar þess að ríkisstjórn Íslands hafi beðið um að ekki yrði litið á Ísland sem umsóknarríki.

Þingsályktunartillagan sem nú hefur verið lögð fram verður þannig ætlað að tryggja að umsóknin verði dregin til baka og óvissunni um málið þannig eytt.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila