Flóttamannabúðirnar á Lesbos rjúkandi aska – yfir 13 þúsund manns á flótta frá eymd og kórónu

Flóttamenn úrvinda af þreytu í hrakningum á Lesbos

Stærstu flóttamannabúðir Grikklands, Moria á eyjunni Lesbos brunnu til rústa aðfaranótt miðvikudags og yfir 13 þúsund manns misstu viðveruna, 8 þúsund fullorðnir og 5 þúsund börn. Yfirvöld Grikklands telja eldinn mögulega íkveikju og að reiðir flóttamenn hafi kveikt í til að mótmæla að búðirnar voru settar í einangrun eftir að smit uppgötvaðist í búðunum en 36 mældust með covid-19. Upphaflega voru búðirnar gerðar fyrir 3 þúsund flóttamenn en gríðarlegur og stöðugur straumur flóttamanna breytti því fljótt og mikil vosbúð ríkir á staðnum.

Myndir sýna lest gangandi flóttamanna frá Moria að borginni Mytelini og fréttir hafa einnig borist af flóttafólki sem flúði til fjalla og til annarra bæja fjarri búðunum til að komast sem lengst burtu frá öðrum smitaðum flóttamönnum og til að forðast grísku lögregluna. Eldar blossuðu upp að nýju miðvikudagskvöld en margir flóttamenn höfðu þá snúið aftur til að leita að eigum í öskunni. Þegar þeir reyndu að fara aftur í burtu frá búðunum mættu þeir lögreglu með vatnsbyssur og táragas.

Margir íbúar borgarinnar Mytelini eru æfareiðir og vilja ekki sjá flóttamennina í borginni. Er búist við að átök geti brotist út ef flóttamennirnir ná fram til borgarinnar.

Kyriakos Mitsotakis forsætisráðherra Grikklands lofaði tjöldum til flóttamannanna og einnig munu skip með pláss fyrir þúsundir flóttamenn koma til eyjarinnar. Lýst hefur verið yfir neyðarástandi á eyjunni. Forsætisráðherrann sagði að flóttamannaástandið á Lesbos gæti ekki haldið svona áfram og sagði að þetta „væri vandamál Evrópusambandsins.” ESB hefur hafið ferjuflug með flóttamenn frá Lesbos trúlega til annarra flóttamannabúða innan ESB.

Sjá nánar hér

Athugasemdir

athugasemdir

Deila