Fólk fær bætur vegna aukaverkana vegna bóluefna gegn apabólu – Skaðabótaréttur vegna Covid bólefna var ekki tryggður

Willum Þór Þórson heilbrigðisráðherra hefur lagt fram frumvarp sem tryggir að þeir sem hafa þegið bólusetningu gegn apabólu geti fengið bætur fái þeir aukaverkanir af bólusetningunni.

Í umsögn með frumvarpinu kemur margt athyglisvert fram en í umsögninni segir meðal annars

„Mikilvægt er að huga að bótarétti þeirra sem þiggja bólusetninguna og verða fyrir tjóni þrátt fyrir að farið sé að öllum reglum við rannsóknir og þróun bóluefna og góðum framleiðsluháttum við lyfjagerð fylgt í hvívetna. Við athugun á skaðabótarétti þeirra einstaklinga sem láta bólusetja sig, sem fram fór eftir COVID-19-faraldurinn, varð ljóst að skaðabótaréttur þeirra sem fengu aukaverkanir, þekktar eða óþekktar, af völdum bóluefna, er ekki nægilega tryggður að íslenskum rétti“

Þá segir að fyrrgreint bráðabirgðaákvæði um bótarétt vegna bólusetningar við COVID-19-sjúkdómnum, sem var samþykkt með lögum breyti hins vegar ekki réttarstöðu einstaklinga vegna skaða af bólusetningum við öðrum smitsjúkdómum. Því þyki rétt þykir að tryggja stöðu þeirra einstaklinga sem láta bólusetja sig gegn apabólu með því að setja bráðabirgðaákvæði sem tryggir skaðabótarétt þeirra.

Einnig segir í umsögninni að ef frumvarpið verði að lögum muni íslenska ríkið axla ábyrgð á þeirri rýmkun skaðabótaábyrgðar sem lögð er til. Ekki þykir rétt að kröfum skuli beint til einstakra heilbrigðisstofnana. Þó að lagt sé upp með að Landspítalinn sjái um framkvæmd bólusetninga gegn apabólu er ekki útilokað að þeim verði að einhverju leyti sinnt af heilbrigðisstarfsmönnum sem eru í þjónustu sveitarfélaga, sjálfseignarstofnana eða einkafyrirtækja. Vegna ábyrgðar ríkisins sé eðlilegast að beina öllum kröfum í sama farveg, eins og lagt er til. Er því gert ráð fyrir að sjúkratryggingastofnunin beri bótaábyrgð vegna bólusetninga við apabólu með bóluefni, óháð því hvar bólusetning fer fram innan heilbrigðisþjónustunnar

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila