Forsætisráðherra undirritaði samning við Kvenréttindafélag Íslands

Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir framkvæmdastjóri Kvenréttindafélags Íslands

Forsætisráðuneytið og Kvenréttindafélag Íslands (KRFÍ) hafa ákveðið að endurnýja samning um að félagið sinni ráðgjöf, fræðslu, námskeiðahaldi og upplýsingagjöf um jafnrétti kynjanna á innlendum og erlendum vettvangi. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir framkvæmdastjóri Kvenréttindafélags Íslands, undirrituðu samstarfssamning í Stjórnarráðinu í dag.

Í tikynningu segir að meginmarkmiðið samningsins sé að efla fræðslu fyrir almenning um kynjajafnréttismál í samræmi við markmið laga um jafna stöðu og jafnan rétt kvenna og karla. Samkvæmt samningnum skal Kvenréttindafélagið sinna ýmiss konar fræðslu meðal annars gerð upplýsingaefnis á íslensku og ensku, opnum fundum, útgáfu námsefnis um jafnréttismál á rafrænu formi eða prenti og fleiri verkefnum.

Samningurinn er til eins árs og gildir frá 18. febrúar 2020 til 18. febrúar 2021 og greiðir forsætisráðuneytið Kvenréttindafélaginu tíu milljónir króna til að sinna þeim verkþáttum sem samningurinn tekur til.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila