Forseti Íslands sækir minningarathöfn um helförina í Jerúsalem

Forseti Íslands Guðni Th. Jóhannesson heldur til Ísraels í boði Reuven Rivlin, forseta Ísraels, dagana 22. og 23. janúar næstkomandi. Þetta kemur fram í tilkynningu frá skrifstofu forseta Íslands. Í tilkynningunni segir að þar muni forseti ásamt um 50 þjóðarleiðtogum, forystumönnum ríkisstjórna og þjóðþinga, sækja dagskrá í Jerúsalem til að minnast helfararinnar gegn gyðingum í síðari heimsstyrjöldinni.


Minningardagskráin 23. janúar er skipulögð af World Holocaust Forum Foundation í samstarfi við Yad Vashem stofnunina. Meðal ræðumanna verða Reuven Rivlin forseti Ísraels, Vladímír Pútín forseti Rússlands, Emmanuel Macron forseti Frakklands, Frank-Walter Steinmeier forseti Þýskalands, Michael R. Pence varaforseti Bandaríkjanna og Karl Bretaprins. 


Í kjölfarið mun forseti Íslands leggja blómsveig frá íslensku þjóðinni til minningar um fórnarlömb helfararinnar að minnismerki um uppreisnina sem gyðingar stóðu að árið 1943 í gettóinu í Varsjá.


Miðvikudaginn 22. janúar mun forseti Íslands sitja hátíðarkvöldverð forseta Ísraels ásamt öðrum forystumönnum sem sækja minningardagskrána. Þá mun forseti Íslands eiga fundi með landstjóra Kanada og forseta Finnlands meðan á dvöl hans í Jerúsalem stendur.


Á leið sinni til Ísraels mun forseti Íslands sækja landsleik Íslands og Portúgals í handknattleik karla sem fram fer í Malmö sunnudaginn 19. janúar.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila