Forseti Úkraínu hefur skrifað undir yfirlýsingu um að endurheimta Krímskagann – treystir á stuðning Bandaríkjanna og NATO

Forsetar tveggja ríkja að Svartahafi. Erdogan forseti Tyrklands t.h. hét Zelensky forseta Úkraínu t.v. stuðningi við áformin að endurheimta Krímskagann.

Hinn 24. mars undirritaði Volodomyr Zelensky forseti Úkraínu yfirlýsingu samkvæmt tilskipun nr. 117/2021 sem er jafngildi stríðsyfirlýsingar.

Tilskipunin er skrifuð á úkraínsku og ef Google þýðir nokkurn veginn rétt, þá er innihaldið eitthvað í líkingu við þetta (fyrirvari hafður á að þýðingin getur verið ófullkomin, þar sem fréttamaður hefur enga þekkingu á úkraínsku máli):

Tilskipun forseta Úkraínu UK117 / 2021
Vegna ákvörðunar Þjóðaröryggis- og varnarmálaráðs Úkraínu frá 11. mars 2021 „Um stefnumörkun hersetu og enduraðlögunar tímabundins hertekins yfirráðasvæðis sjálfstjórnarlýðveldisins Krím og Sevastopol borgar“

Í samræmi við 107. grein stjórnarskrárinnar í Úkraínu skipa ég:

  1. Að hrinda í framkvæmd ákvörðun þjóðaröryggis- og varnarmálaráðs Úkraínu frá 11. mars 2021 „Um stefnumörkun hersetu og enduraðlögunar tímabundins hertekins yfirráðasvæðis sjálfstjórnarlýðveldisins Krím og Sevastopol borgar“ (meðfylgjandi) .
  2. Að samþykkja áætlun um hernám og enduraðlögun tímabundins hertekins yfirráðasvæðis sjálfstjórnarlýðveldisins Krím og Sevastopol borgar (meðfylgjandi).
  3. Eftirlit með framkvæmd ákvörðunar þjóðaröryggis- og varnamálaráðs Úkraínu, sem lögfest er með þessari tilskipun, skal vera í höndum framkvæmdastjóra þjóðaröryggis- og varnamálaráðs Úkraínu.
  4. Tilskipun þessi öðlast gildi á birtingardegi hennar.

Forseti Úkraínu V. ZELENSKY
24. mars

Hertækin flutt á vígvöllinn

Þetta er aðeins inngangur tilskipunarinnar, sem er upp á margar síður með útlistun á framkvæmdinni að „endurheimta hið tímabundna hertekna yfirráðasvæði sjálfstjórnarlýðveldisins Krím og Sevastopolborgar.” Með forsetaskipuninni er það nú opinber stefna Úkraínu að endurheimta Krím frá Rússlandi með öllum tiltækum ráðum.

Zelensky forseti Úkraínu skoðar vígstöðvarnar í austurhluta landsins.

Þegar eftir forsetaskipunina sendi úkraínuher skriðdreka á járnbrautarvögnum og önnur hergögn til átakasvæðanna í austri en Bandaríkjamenn hafa einnig sent mikið magn af nýjum vopnum til Úkraínu að undanförnu. Þar með taldar ómannaðar flugvélar, rafræn hernaðarkerfi, árásarvopn gegn skriðdrekum og færanleg loftvarnarkerfi (MANPADS).

Það var þessi stríðsyfirlýsing, sem Moskva tók mjög alvarlega, sem olli því að Rússar juku nærveru rússnesks hers á Krímskaga og nálægt landamærum Rússlands og Donbass. Þar er 76. flugvarðasveitin tilbúin með Pskov-fallhlífarhermenn sem sögur ganga um að geti tekið Úkraínu á skömmum tíma.

Treystir á stuðning frá Bandaríkjamönnum og NATO

Í byrjun apríl hringdi Lloyd Austin, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, þá nýkominn úr stöðu stjórnarmanns hjá eldflaugaframleiðandanum Raytheon, í Zelensky og lofaði „órofnum stuðningi Bandaríkjanna við fullveldi Úkraínu.“ Það er túlkun Moskvu, að Zelensky hefði aldrei undirritað tilskipunina án þess að hafa fengið grænt ljós fyrst frá Washington.

Zelensky forseti Úkraínu hefur átt samtöl við aðila NATO m.a. framkvæmdastjóra Atlantshafsbandalagsins Jens Stoltenberg og heimsótt Erdogan forseta Tyrklands. Zelensky hefur verið vel tekið og að sögn verið heitið stuðningi við áform sín um endurheimtingu Krímskaga.

Zelensky sagði: „NATO er eina leiðin til að binda enda á stríðið í Donbass“ Það þýðir í reynd að NATO auki „nærveru sína“ á Svartahafi. „Slík varanleg nærvera væri mikill fælingamáttur gagnvart Rússum, sem halda áfram stórfelldri hervæðingu á svæðisinu og hindra kaupskipasiglingar.“

Frönsk-þýsk yfirlýsing

Þjóðverjar eiga mikið undir Nordstream 2 gasleiðslunni frá Rússum til Þýskalands

3. apríl var gefin út frönsk-þýsk yfirlýsing þar sem lýst var áhyggum af „stigmögnun aðila deilunnar.“ Voru hlutaðeigandi hvattir til að lægja öldurnar og fara hefðbundnar samningaleiðir. Joe Biden hefur hvað eftir annað ítrekað yfirlýsingar um að stöðva verði Nordstream 2 sem á að flytja gas frá Rússlandi til Þýskalands. Brýst út full styrjöld gæti hann náð því markmiði og endanlega rekið fleyg á milli Rússlands og ESB, samtímis sem hann endurgreiðir stuðningsmönnum sínum í vopnaframleiðslu með stórum pöntunum.

Horfur á friði dapurlegar

Denis Pushilin, einn helsti leiðtogi lýðveldanna Lugansk og Donetsk, lýsti því yfir að líkurnar á að forðast stríð séu „ákaflega litlar“. Búast sumir við árás Kiev í byrjun maí. Igor Strelkov, hersérfræðingur, segir að stríð í apríl sé „mjög líklegt“ og að betra sé fyrir Rússland að fara í stríð núna frekar en seinna, því 99% líkur séu á því að Washington muni ekki berjast fyrir Úkraínu.

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, hótaði Rússum í þættinum „Meet the Press“ hjá NBC:

„Það hefur afleiðingar í för með sér, ef Rússland sýnir árásargirni á einhverjum tímapunkti gagnvart Úkraínu. Ég hef raunverulegar áhyggjur af aðgerðum Rússlands á landamærum Úkraínu. Þess vegna erum við í mjög nánu sambandi við bandamenn okkar og samstarfsaðila í Evrópu. Biden forseti er mjög skýr varðandi þetta. Ef Rússar hegða sér á óábyrgan hátt eða sýna árásargirni, þá mun það kosta, það mun hafa afleiðingar.“

Hverjar afleiðingarnar verða vildi ráðherrann ekki skýra.

Ásakar Úkraínu fyrir að taka þátt í hættulega ögrandi aðgerðum

Kreml lýsti yfir áhyggjum á föstudag af möguleikum á víðtækum hernaðarátökum á svæðinu og kenndu Kiev um að hafa með ásetningi skapað spennu og komið með falskar ásakanir um fyrirhugaða rússneska sókn.

„Aukning á spennu í suðausturhluta Úkraínu réttlætir þær ráðstafanir sem Rússar grípa til“ sagði Dmitry Peskov, talsmaður Kreml, við blaðamenn á föstudag. „Þróunin í hegðun úkraínsku hliðarinnar skapar hættu á að stríðssaðgerðir verði hafnar að nýju í fullum mæli.“

Vladimir Pútín forseti Rússlands ásakar Úkraínu fyrir að taka þátt í „hættulegum ögrandi aðgerðum“ gegn rússneskumælandi aðskilnaðarsinnum í austurhluta Donbass svæðisins. Hann sagði þetta í símtali við Tayyip Erdogan, forseta Tyrklands, á föstudag og lagði áherslu á, að rússneskir hermenn væru einungis að bregðast við ögrunum Úkraínu.

Athugasemdir

athugasemdir

Deila