Verkföll gegn breytingum Macrons á ellilífeyriskerfinu lama gjörvallt Frakkland

Frakkar eru mjög ósáttir við Macron forseta

Á fimmtudaginn þrömmuðu yfir 800 þúsund Frakkar í a.m.k. 240 mótmælum um allt land gegn breytingaráformum Emmanuel Macron á lífeyriskerfinu. Skólar eru lokaðir og umferðin virkar ekki, m.a. var 90% lestarferða aflýst og 20% flugsamgangna lagðar niður. Tíu neðanjarðalestum var lokað í París. Til töluverðra átaka hefur komið á milli mótmælenda og lögreglu. Verkalýðsfélögin í Frakklandi lofa verkfalli a.m.k. fram að jólum.

Daily Mail segir að þetta séu umfangmestu verkföllin í Frakklandi í áratugi og meðal verkfallsmanna má finna starfsmenn sjúkrahúsa, lestarfélaga og kennara. Sex þúsund lögreglumenn í París mynduðu skjaldborg um forsetahöllina þegar mómælendur söfnuðust saman til að reyna að fá Macron til að hætta við áform sín.

Lögreglan beitti ofbeldi og táragasi til að dreifa mótmælendum í París og öðrum borgum. Ástandið varð eldfimt þegar einhverjir kveiktu í bíl og brutu rúður við Place de la Republique.

Einn mótmælenda klæddi sig sem trúð eins og farið er að sjást í mörgum löndum eins og t.d. Íran og er hugmyndin sótt í hina umræddu kvikmynd Joker. 

14 % af vergri þjóðarframleiðslu fer til greiðslu ellilífeyris og lofaði Macron því í kosningabaráttunni að hann myndi breyta kerfinu. Forsetinn vill leggja niður 42 ólíka skala lífeyriskerfisins og hafa einungis einn og sama skalann fyrir allt Frakkland. Skalarnir eru mismunandi eftir því hvort unnið hefur verið hjá hinu opinbera eða hjá einkafyrirtækjum.

Verkalýðsfélögin segja að stórir hópar ellilífeyrisþega munu tapa á tillögum forsetans og lofa að halda verkföllunum áfram þar til Macron hættir við breytinguna.

Slökkviliðs- og sjúkraflutningsmenn eru meðal þeirra sem fá ellilífeyrinn skertan ef áform Frakklandsforseta ná fram að ganga.
Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila