Fréttir vikunnar: Kosningaúrslitin, Bankasalan og breytingar á útlendingalögum

Það mættust stálin stinn í fréttum vikunnar í dag en þar voru Brynjar Níelsson aðstoðarmaður dómsmálaráðherra og varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins og Sigmar Guðmundsson gestir Arnþrúðar Karlsdóttur. Fóru þeir félagar meðal annars yfir úrslit sveitarstjórnarkosninganna og spáðu þar í spilin og þá möguleika sem eru fyrir hendi til myndunar nýrrar borgarstjórnar.

Best að hafa enga skoðun og mjúka ásjónu

Brynjar sagði að pólitíkin væri heldur litlaus og þar mætti helst kenna um ákveðnu óþoli fyrir því að menn setji fram skoðanir sínar, þeir séu þá uppmálaðir og úthrópaðir, því einkenni það svolítið pólitíkina að þar hafi menn helst ekki skoðanir lengur og passi sig á að hafa mjög milda ásjónu.

Sigmar bendir á að í sveitarstjórnarmálum geti verið erfiðara að greina milli framboða þar sem eðli sveitastjórarpólitíkur sé öðruvísi en í landsmálunum, þetta sé einfaldlega annað svið og það sé í raun ekkert athugavert við það.

„hins vegar í landsmálunum þá er ég nú í flokki sem boðar nokkuð róttækar kerfisbreytingar og vill ganga í Evrópusambandið og þar af leiðandi held ég að ég geti ekki tekið undir það að við séum neitt skoðanalaus, að minnsta kosti hefur Brynjar talað þannig til okkar að við séum það sennilega ekki“ segir Sigmar.

Bankasalan vissulega pólitísk hugmyndafræði

Umræðurnar á þingi eru ekki að breytast í kurteisisumræður að mati Brynjars hins vegar sé hans skoðun sú að umræðan á þingi sé farin að snúast um eitthvað sem skipti ekki máli hvað varðar hagsmuni þjóðarinnar, til dæmis um hvað einhver sé slæmur og umræðan fer í eitthvað upphlaup.

„ég held að það náist enginn árangur með því og ég finn alveg að fólk er orðið þreytt á því, þannig ég held að menn ættu að koma sér út úr því og fara að taka alvöru baráttu um hugmyndafræði og berjast á þessu markaðstorgi hugmyndanna og hafa einhverja sýn í því, ég vil hrósa Viðreisn sem hafa þó verið alveg skýrir með það að þeir vilji fara í Evrópusambandið og ræða þá kosti og galla þess því það eru auðvitað kostir og gallar“segir Brynjar.

Sigmar segist ekki alveg sammála Brynjari um að ekki sé rætt um hugmyndafræði því bankasalan sé til dæmis ákveðin hugmyndafræði sem hafi heldur betur verið rædd á þinginu.

„svo fer umræðan í þeim efnum út í umræður um vinnubrögð og hvernig menn setji fram útfærslur, það sé hluti af pólitíkinni“ segir Sigmar.

Traust verður að vera til staðar

Aðspurðir um hvort bankasölumálið sé búið mál segja þeir að það muni koma í ljós þegar niðurstaða eftirlitsaðila liggi fyrir. Sigmar segir þó ljóst að það verði að vera traust til staðar til að hægt sé áfram að vinna í því að selja bankana, ekki sé hægt að halda áfram án traustins.

Brynjar segir umræðuna um bankasöluna í samfélaginu hafa verið þannig að hún hafi líklega haft áhrif á niðurstöðurnar í sveitarstjórnarkosningunum og undir það tekur Sigmar, það sé hins vegar erfitt að segja hversu mikil áhrif málið hefur haft.

Umræðan skökk og ekki í samræmi við tilefnið

Hvað áhrif fjölmiðla varðar segir Sigmar að þeir séu að hans mati að gera sitt besta, menn séu þó með mismunandi áherslur eins og gengur, umræðan á samfélagsmiðlum sé þó stjórnlausari.

„auðvitað er ekkert óeðlilegt við það það atburðir eins og bankasalan hafi áhrif á umræðuna, fólk hafi verið upp til hópa óánægt með þetta, menn hafi myndað sér skoðanir á málinu og ekki megi vanmeta það“segir Sigmar.

Brynjar segir umræðuna um málið hafa verið skakka, þar hafi fjölmiðlar borið ábyrgð, hent ákveðnum skoðunum inn á völlinn en lítið sem ekkert kynnt sér þær reglur sem um söluna giltu, það hafi verið ákveðnar reglur, Brynjar segir salan hafi ekki verið með öðrum hætti en gert hafi verið ráð fyrir að hún yrði.

„menn verða bara horfa á reglurnar sem um er að ræða, umræðan var ekki endilega rétt og sanngjörn og hún hefur áhrif á afstöðu fólks“

Ósammála um hvort ný útlendingalög séu til bóta

Þá ræddu þeir Brynjar og Sigmar um frumvarp til nýrra útlendingalaga en Sigmar segist helst undrandi yfir því að frumvarpið komi alltaf inn á borð þingsins aftur og aftur því það muni ekki fara í gegn vegna andstöðu VG. Sigmar segir að hér vanti fólk til þess að vinna störf en Brynjar segir að það fólk verði ekki sótt í gegnum hælisleitendakerfið. Brynjar segir að hælisleitendakerfið sé stjórnlaust í dag og frumvarpið miði helst að því að ná betur utan um mál hælisleitenda svo hægt verði að afgreiða mál þeirra og fólk þurfi ekki að bíða í tíma og ótíma eftir að mál þeirra verði afgreidd. það sé einfaldlega þannig að það er ekki hægt að taka á móti öllum sem vilji koma.

Sigmar segir kerfið vera ekki nógu gott fyrir fólk, hér sé fólk búið að bíða oft mjög lengi og jafnvel komið í vinnu þegar mál þeirra séu loksins afgreidd og þeim þá kannski vísað úr landi.

„þetta frumvarp á einmitt að taka á því“ segir Brynjar.

Hlusta má á þáttinn í spilaranum hér að neðan

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila