Fréttir vikunnar: Olíuleit, orkumálin, landbúnaður og Evrópumálin

Í vikunni kom þingið saman og því hefur fjölmargt verið í deiglunni í þessari viku og var stiklað á því helsta í þættinum Fréttir vikunnar í dag en þar voru þau Ingibjörg Ólöf Isaksen þingmaður Framsóknarflokksins og Jóhann Páll Jóhannsson þingmaður Samfylkingarinnar gestir Arnþrúðar Karlsdóttur.

Í stefnuræðu forsætisráðherra kom fram að stefnt sé að því að leggja bann við olíuvinnslu við strendur Íslands. Ingibjörg segir að það verði afar áhugavert að fylgjast með umræðum um málið þegar það kemur til kasta þingsins en bendir á að málið sé í takti við stefnu Íslands í orkumálum og ekki síst þeim orkuskiptum sem framundan séu.

„umræðan um olíu og gas og mikilvægi þess að vera sjálfbær í orkumálum er orðin mjög hávær og við höfum farið í orkuskipti áður þegar við tókum út kol og gas, það var alveg gríðarlegt framfaraskref sem við búum að í dag, til dæmis búum við ekki við sömu erfiðleika og kostnaði og sumar Evrópuþjóðir gera svo við getum verið nokkuð stolt“

Hún bendir á að stærsta framlag Íslands til loftslagsmála sé nýting grænnar orku og að engin þjóð nýti græna orku í sama magni og Íslendingar. Þá séu sóknartækifæri í orkuframleiðslu á Íslandi, t,d rafmagn og vetnisframleiðslu sem bílaframleiðendur horfa til. Þá þurfi einnig að hafa orkuskipti þegar kemur að stærri vélum og tækjum eins og skipum og flugvélum. Þá sé næsta skref að beisla vindorku og það sé mikilvægt að land í eigu ríkisins sé nýtt til þess því skapa þurfi ákveðna umgjörð utan um framleiðsluna t,d hvað varðar regluverk, hver eigi að borga brúsann og fleira áður en næstu skref séu stigin.

Þarf að skoða enn frekar leiðir til þess að efla fæðuöryggi

Ingibjörg segir að án efa haldi umræður um fæðuöryggi áfram á þessu þingi enda sé um mjög mikilvægan málaflokk að ræða.

„það er mikilvægt að stíga mjög ákveðin skref í þessu og styðja við bakið á bændum og vekja enn frekar þennan framleiðsluáhuga því þetta hefur alveg verið mjög strembið að undanförnu fyrir marga bændur í landinu“

Þá þurfi einnig að huga að stöðu grænmetisbænda.

„það sem grænmetisbændur hafi verið að glíma við að þeir geti ekki nýtt sér þessa LED lýsingu í þessari LED lýsingarvæðingu sem er ódýrari og hagkvæmari, þeir eru því að greiða háan orkukostnað og það þarf einhvern vegin að finna leiðir til þess að koma til móts við það því það þurfa að vera hvatar til þess að framleiða meira“ segir Ingibjörg.

Eðlilegt að þjóðin fái að ákveðna hvort hefja eigi ESB viðræður á ný

Þá var í þættinum einnig rædd tillaga Samfylkingar, Pírata og Viðreisnar um að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um hvort hefja eigi aðildarviðræður við Evrópusambandið á ný.

Jóhann Páll segir eðlilegt að þjóðin fái eitthvað um það að segja hvort hafnar verði aðildarviðræður á ný því þjóðin hafi ekki verið spurð um það hvort ætti að hætta þeim á sínum tíma þegar aðildarumsóknin var dregin til baka. Hann segir marga kosti vera við það að ganga í sambandið en það þýði þó ekki að það séu engir ókostir við það.

„það eru mjög sterk menningar, pólitísk og félagsleg rök fyrir því að Ísland tilheyri þessu ríkjasambandi sem flestar nágrannaþjóðir okkar tilheyra, viðskiptakjör myndu batna það myndi draga mjög úr viðskiptakostnaði, það eru bara mjög sterk rök sem hníga að Evrópusambands aðild en ég ætla ekkert að láta eins og það séu engir ókostir heldur“ segir Jóhann.

Aðspurður um hvort það sé vænlegt að ganga í Evrópusambandið eins og staðan sé nú í Evropu þar sem orkukrísa ríki og erfitt ástand.

„það er ekkert að ástæðulausu sem nágrannaþjóðir okkar hafa haldið þjóðaratkvæðagreiðslur þar sem spurt er til dæmis um hversu mikinn þátt þjóðirnar eigi að taka í varnarsamvinnu á vettvangi ESB, þetta eru risastórar spurningar sem vakna sérstaklega eftir innrásina í Úkraínu og ég held að þetta sé ekkert verri tími en hver annar til þess að spyrja þjóðina“segir Jóhann.

Hlusta má á þáttinn hér að neðan.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila