Frumvarp um lækkun kosningaaldurs lagt fram á ný

Andrés Ingi Jónsson þingmaður utan flokka hefur lagt fram á ný frumvarp þar sem gert er ráð fyrir lækkun kosningaaldurs niður í 16 ár. Andrés Ingi er fyrsti flutningsmaður frumvarpsins en með honum standa að frumvarpinu tíu aðrir þingmenn,þingmenn úr Samfylkingu, Viðreisn, Pírötum og annar þingmaður utan flokka.

Frumvarpið inniheldur þó breytingar frá fyrra frumvarpi sem gerði ráð fyrir að lækkun kosningaaldurs ætti eingöngu við sveitastjórnarkosningar, en nú er gert ráð fyrir stjórnarskrárbreytingu á þann hátt að lækkun kosningaaldurs myndi gilda yfir allar kosningar.

Fram kemur í tilkynningu vegna málsins að frumvarpið sé hugsað til að styrkja lýðræðið með því að bregðast við aukinni kröfu ungs fólks um að hafa tækifæri til að taka virkan þátt í mótun samfélagsins.

Þá segir í tilkynningunni að rödd ungu kynslóðarinnar sé sjálfsagður og ómissandi þáttur í því að bæta lífið í landinu, og með lækkun kosningaaldurs getur stærri hópur ungs fólks haft bein áhrif gegnum kosningar. Að mati þeirra þingmanna sem standa að frumvarpin myndi lækkun kosningaaldurs auðga stjórnmálin með nýjum hugmyndum um leið og þjóðin sé að eldast.

Deila þessari frétt á samfélagsmiðla

Deila